Bækur og rit

Faldar og skart

  • 2013 - Sigrún Helgadóttir

Grasafræðingurinn William Hooker hafði mér sér heim til Englands árið 1809 dýrindis íslenskan faldbúning og brúðarskart. Í bókinni Faldar og skart, sem kom út árið 2013, rekur höfundur sögu þessa faldbúnings ásamt sögu íslenskra kvenklæða fram á 20. öld með aðaláherslu á faldbúninginn. 

Honum er lýst í heild og einstökum hlutum hans. Hempur, faldar tröf, hattar, skildahúfur, skarðhúfur, spaðahúfur, skotthúfur, treyjur, kragar, skyrtur, upphlutir, samfellur, pils, millipils, undirpils, svuntur, klútar, handlínur, lausavasar, sokkar, sokkabönd, leppar og skór – að ógleymdu öllu silfrinu! Efni, snið, vefnaður, þráður, litun, saumaskapur: baldýring, perlusaumur, flauelsskurður, knipl, blómstursaumur, krosssaumur, raksprang, riðsprang, holbeinsaumur, flatsaumur, herpisaumur, hvítsaumur... Hér er Íslandssagan sögð með hannyrðum kvenna.

Höfundurinn, Sigrún Helgadóttir, hefur samið margar kennslu- og fræðibækur og hlotnast ýmsar viðurkenningar. Hún hefur starfað í faldbúningahópi Heimilisiðnaðarfélagsins, Faldafeyki. Það er Heimilisiðnaðarfélag Íslands og Bókaforlagið Opna gáfu bókina út í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands árið 2013.