Fyrirlestrar

Tíminn sefur. Fornaldargarðarnir miklu á Íslandi

  • 11.03.2020 Fyrirlestrasalur Þjóðminjasafns Íslands

Miðvikudaginn 11. mars kl. 12 flytur Árni Einarsson líffræðingur, fornvistfræðingur og forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn erindi í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Árni hefur stundað rannsóknir á fornum garðhleðslum undanfarna tvo áratugi. 

Fyrirlesturinn fjallar um garðlögin miklu á Íslandi og byggir á nýútkominni bók um efnið. Áherslan að þessu sinni er á byggðarmynstrið sem garðlögin afhjúpa, hvernig garðarnir tengja saman fornminjar sem langt er á milli og hjálpa til við að uppgötva áður óþekktar minjar, t.d. bæi og grafreiti. Þá leiða garðlögin í ljós tímabil þegar umskipti verða í byggðasögunni. Hingað til hefur kortlagning garðanna nær einskorðast við Norðurland. Nú hefur verið gerð forkönnun á Suðurlandsundirlendinu, og verður greint frá fyrstu niðurstöðum sem eru sannarlega óvæntar og kalla á ítarlegri rannsóknir.