Annars konar kórónur - Annars konar kórónur

 • Geislakóróna á höfði engils með útbreidda vængi. Þennan útskurð er að finna á glæsilega skornum skáp, mjög útflúruðum, sem var sveinsstykki/prófstykki Gunnlaugs Blöndals (1893-1962) er hann varð fullnuma í útskurðarlist hjá Stefáni Eiríkssyni útskurðarmeistara arið 1913. Gunnlaugur er þekktastur fyrir að vera einn fremsti listmálari þjóðarinnar en færri vita hversu gríðarlega fær hann var í útskurðarlist. Skápurinn var gullbrúðkaupsgjöf til Sesselju og Andésar Fjeldsted á Hvítárvöllum (síðar í Ferjukoti) frá börnum þeirra.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=353380

 • Konungskóróna, saumuð með gylltum málmþræði í patínudúk. Kórónan svífur yfir kransi sem tveir englar fljúga með á milli sín. Annar þeirra blæs úr lúðri sínum: „C 7 VIVAT“, þ.e. Lifi Kristján 7. Hinn blæs ártalinu 1785 úr sínum lúðri. Patínudúkar fylgdu patínum, þ.e. litlu diskunum sem oblátur eru látnar á við útdeilingu þeirra í kirkju. Patínudúkurinn var eins konar hlífðardúkur, lagður ofan á útdeilingaráhöldin til hlífðar því sem í þeim var.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=319257

 • Kóróna efst á lárviðarsveigi sem engill með útbreidda vængi ber. Inni í kransinum er nafndráttur konungs, nú brotinn og laskaður. Gripurinn, sem er frá 18. öld, var líklegast skorinn út í Danmörku en hann hékk í Stóra-Núpskirkju í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

   https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=338611

 • Ein af fimm kórónum sem varðveittar eru í safninu og notaðað voru til útiskreytinga á höfninni í Reykjavík og í nágrenni hennar á þjóðhátíðinni 1874, þegar Kristján konungur 9. kom til landsins og afhenti Íslendingum stjórnarskrána. Kórónurnar voru svo endurnýttar á svipaðan hátt þegar Friðrik konungur 8. heimsótti Ísland árið 1907 sem og þegar Kristján 10. kom hingað árið 1921. Ekki er vitað hvort þær voru notaðar í síðari heimsóknum hans.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=318576

 • Kóróna á fangamerki Kristjáns konungs 9. Fangamerkið er í húni/toppi á stöng fána Skotfélags Reykjavíkur frá 1867 en félagið var stofnað 2. júní það ár. Skotfélag Reykjavíkur er elsta íþróttafélag Íslands og Skothúsvegur, sem liggur yfir Tjörnina í Reyjavík, dregur nafn sitt af skothúsi félagsins sem var reist um sama leyti nálægt vesturenda Skothúsvegar.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=318364

 • Vegleg kóróna á höfði Ólafs helga Noregskonuns (990-1030). Ólafur kynntist kristni í víkingaferðum og átti stóran þátt í að snúa Norðurlandabúum til kristni. Árið 1015 lét hann krýna sig til konungs yfir sameinuðum Noregi. Margar kirkjur á Íslandi voru helgaðar Ólafi konungi og áttu líkneski af honum. Þetta líkneski frá 16. öld er úr einni þeirra en ekki er vitað hverri.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=315380

 • Kóróna yfir gamla skjaldarmerki Íslands með flatta þorskinum á. Umhverfis merkið er fílakeðja. Merkið er á innsigli landsyfirréttarins. Það er frá stofnun réttarins árið 1801. Landsyfirréttur tók yfir hlutverki Lögréttu sem æðsti dómstóll Íslands þegar Alþingi var lagt niður samkvæmt skipan konungs. Landsyfirréttur var svo lagður niður í lok árs 1919 og í hans stað kom Hæstiréttur.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=334007

 • Kóróna í nafndrætti Kristjáns konungs fimmta. Fangamarkið er á koparlóði frá árinu 1698.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=342124

 • Kóróna, saumuð með gulum silkiþræði á peningabuddu frá 1788. Á buddunni eru líka stafirnir W Th. Það eru upphafsstafir Vigfúsar Thorarensen sýslumanns (1756-1819) á Hlíðarenda sem fyrstur átti budduna.

  https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=320395

 • Kóróna yfir Íslandi á koparskildi með merki póstsins. Undir Íslandi er póstlúður. Skjöldurinn er á pósttösku frá 19. öld, frá tímum konungsríkisins. Reglulegar póstferðir hófust á Íslandi árið 1782. Landpóstar fóru ríðandi langar leiðir sem klyfjaða hesta sem báru póstinn. Jafnframt höfðu landpóstarnir pósttösku um öxl, með konunglegu merki, sem í vöru höfð mikivægustu bréfin.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=324109

 • Kóróna á höfði skeggjaðrar, brynjuklæddrar veru. Veran er hluti af gagnskornu skreyti á rúmfjöl úr Dalasýslu. Rúmfjalir voru hafðar í rúmum í baðstofum. Á næturna var þeim stungið með ytri rúmstokknum og vörnuðu því að rúmfötin dyttu fram úr. Á daginn voru þær lagðar innst í rúmið, með skreyttu hliðina fram, eða lagðar á hnén þegar setið var við vinnu í rúminu og gegndu þannig hlutverki vinnuborðs. Mjög algengt er að bakhliðar rúmfjala séu þaktar grunnum rákum eða skurðum, enda voru þær gjarna notaðar sem skerborð, t.d. til að skera tóbak.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=345782

 • Kóróna efst á gylltri silfurnælu. Í nælunni er fangamarkið IHS, samandregið, þ.e. fangamark krists (þrír fyrstu stafirnir í nafninu Jesú á grísku). Þar í hangir lauf, eins konar A með legg yfir og er túlkað sem eins konar fangamark Maríu og vísi til Maríubænarinnar Ave Maria. Þótt gripurinn sé að líkindum ekki eldri en frá 18. öld þá fylgir honum sú áhugaverða saga að hann sé mun eldri og hafi verið verndargripur gegn svartadauða.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=335278

 • Kóróna yfir fangamarki Friðriks konungs 7. Fangamarkið er á skildi, einkennisspjaldi hafnsögumanns (lóðs). Skjöldurinn var í eigu Vedholms (Wedholms), veitingamanns og hafnsögumanns á Ísafirði. Þegar Kritsján 9. kom til Íslands 1874 skipaði hann Vedholm sem Kongelig Lods. Jón eða Jóhann Vedholm sagðist aldrei vita með vissu hvort fornafnið hann bar. Hann hefði átt tvíburabróður sem látist hafði úr barnaveiki fjögurra ára gamall og móðir þeirra hefði ekki vitað hvor dó, Jón eða Jóhann. Hann mun reyndar hafa heitið Jón en til varúðar skrifaði hann nafn sitt aldrei nema J. Vedholm. Hann dó árið 1906, þá 95 ára gamall en sagðist sjálfur þá fyrir löngu orðinn hundrað ára. Merkið bar hann til æviloka.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=333008

 • Kona með veglega kórónu á höfði. Konan er augljóslega á útlendum búningi en er engu síður á útskorinni fjöl úr Valþjófsstaðarkirkju í Fljótsdal.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=313031

 • Kóróna á útskornu spjaldi, fyrir ofan stafina C IX, þ.e. fangamark Kristjáns konungs níunda. Hinum megin á spjaldinu eru stafirnir IA og tákna Ingólf Arnarson. Á spjaldinu eru ennfremur ártölin 874 og 1874. Spjaldið var haft á þjóðhátíð Borgfirðinga í Þingnesi árið 1874 þegar þúsund ára byggð í landinu var fagnað. https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=326408

 • Kóróna sem tveir englar halda uppi yfir lítilli andlitsmynd innan blómskrauts. Þetta er hluti af skreyti á framhlið útskorins skáps frá síðari hluta 18. aldar. Skápinn skar Hallgrímur Jónsson (1717-1785), þekktur og afkastamikill smiður og tréskurðarmaður frá Naustum við Akureyri. Hann var títt kallaður Hallgrímur bíldur eða Hallgrímur bíldhöggvari (=myndhöggvari). Allmargir gripir eftir Hallgrím bíld eru varðveittir í Þjóðminjasafninu, bæði málaðir og skornir.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=335519

 • Kóróna á vindhanaspjaldi af turni Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd sem var reist 1892-1893 og var á turninum til 1935. Árið 1991 var smíðaður nýr vindhani, eftir þessum, og sá er á kirkjunni nú.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=604240

 • Kóróna í íslenska skjaldarmerkinu, í ofnu ullarteppi (værðarvoð) frá Álafossi eða Gefjun á Akureyri. Skjaldarmerkið er hið eldra af landvættaskjaldarmerkjunu, þ.e. það sem var í gildi 1919-1944, þegar Ísland var enn í konungssambandi við Dani. Síðara landvættamerkið sem tekið var í notkun eftir lýðveldisstofnunina er að sjálfsögðu kórónulaust. Ætla má að værðarvoðin sé frá því um eða stuttu fyrir 1944.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=500405

 • Kóróna í silfurstiplum á Pálsbikarnum svonefnda, farandbikar Sundsambands Íslands, sem var afhentur á árunum 1958-2007, alls fimmtíu sinnum. Kórónan, ásamt ljóninu í stimplunum, sýna að bikarinn er gerður í Englandi. Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, gaf sundsambandinu bikarinn árið 1958 til minningar um Pál Erlingsson, sundkennara og sundfrumkvöðul. Bikarinn var einmitt gefinn með þeim kvöðum að hann yrði afhentur fimmtíu sinnum.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=8077

 • Kóróna í skjaldarmerki Íslands, hinu eldra af landvættaskjaldarmerkjunum og tók við af fálkamerkinu og þar áður því með útflatta þorskinum. Merkið var í gildi 1919-1944, þegar Ísland var enn í konungssambandi við Dani. Konungsúrskurður kvað á um að í merkinu skyldi vera krýndur skjöldur sem á væri fáni Íslands. Skjaldarmerkið teiknaði Ríkarður Jónsson, myndhöggvari og útskurðarmeistari. Þetta tiltekna merki er 70x70 cm stórt, gagnskorið í tré. Ekki er vitað hvort Ríkarður hafi sjálfur skorið það en það hefur vissulega verið gert af færum myndskera og það kom til Þjóðminjasafnsins frá Alþingi. Síðara landvættamerkið sem tekið var í notkun eftir lýðveldisstofnunina er að sjálfsögðu kórónulaust. https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=318592

 • Kóróna í stimpli á borðhnífi frá árinu 1941, sem notaður var af breska hernum þegar hann var hér á Reykjavíkurflugvelli. Stimpillinn: kóróna, krans og RAF, er merki konunglegu bresku herflugsveitanna.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=1659885

 • Kóróna-jakki, eða öllu heldur miði við innanávasa af Kóróna-jakka af gerðinni Adamson sem framleiddur var af Sportveri, sem var afkastamikið á 7. og 8. áratug 20. aldar. Fyritækið rak m.a. tvær saumastofur og þrjár herrafataverslanir í Reykjavík.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=375766

 • Eins konar kórónur á endum krókarefskeflis. Slík kefli eru í raun þráðarkefli, þ.e. kefli sem þráðum var undið upp á, en fólk hefur auðveldlega átt bágt með að skilja notkun þessara gripa og t.a.m. haldið að þau væru barnahringlur. Krókarefskefli eru oft mikil listasmíð. Þau eru skorin út úr einni spýtu. Endar þessa keflis eru gagnskornir og í holi milli rima eru tegldar smákúlur sem leika lausar og hringla til þegar keflið er hreyft. Þá eru lykkjur á endunum og þar í leika hnappar skreyttir kórónunum. Þetta sérstaka nafn, krókarefskefli, hafa þau af því að sagt er að Króka-Refur, sem Krókarefssaga er um, hafi fyrstur tálgað slík kefli. Keflið er íklega frá 19. öld.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=338866

 • Gyllt þyrnikóróna á höfði krists á þessari litlu tréróðu (krossmarki) frá 15. eða 16. öld. Róðan er einungis 17 cm löng og fannst undir gólfþiljum Staðarkirkju í Steingrímsfirði árið 1855.

  https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=338405

 • Kristur með bláa þyrnikórónu á höfði, á altaristöflu eftir Ófeig Jónsson (1769-1843) listamann, trésmið og ljóðskáld á Heiðarbæ í Þingvallasveit. Altaristaflan er úr Torfastaðakirkju í Biskupstungum.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=335573

 • Kristur með grænmálaða þyrnikórónu á róðukrossi úr Staðarkirkju í Grunnavík í Jökulfjörðum.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=338387

 • Kristur með kórónu á höfði, á lítilli róðu frá fyrri hluta 13. aldar frá Limoges í Frakklandi. Róðan hefur áður verið fest á kross og slíkir krossar eru kallaðir Limoges-krossar. Á einhverjum tíma hefur verið settur rauður litur á enni og kinnar krists til að tákna blóðdropa undan (þyrni)kórónunni. Þessi róða er reyndar alls ekki með þyrnikórónur, ekki frekar en aðrar róður í rómönskum stíl. Þessum ámáluðu blóðblettum hefur verið bætt við eftir að gotneskir krossar fóru að tíðkast sem báru með sér meiri tjáningu tilfinninga. Þessi róða er úr Ásakirkju í Skaptártungu.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=328418

 • Kristur með þyrnikórónu á paxspjaldi úr hvalbeini, líklega frá 15. eða 16. öld. Kristur er þarna annað hvort hárlaus eða mjög stutthærður, með stuttklippt hökuskegg og kórónan minnir frekar á snúinn kaðal en þyrnigjörð. Paxspjöld voru notuð í kaþólskum messum. Í ákveðinni athöfn messunnar kyssti presturinn á spjaldið og síðan var það borið um svo allur söfnuðurinn gæti kysst á það (!!!). Um leið var sagt: „Pax vobiscum“, þ.e. friður sé með yður.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=329524

 • Krýnt ljón á útskornum kistli. Ljón með kórónur eru algeng í ýmsum táknum og merkjum í gegnum aldirnar, enda er ljónið tákn hugrekkis, styrks, konungdæmis og margs fleira. Fjölda annarra fígúratífra mynda er að finna á þessum hálf viðvaningslega en þó skemmtilega útskorna kistli. Aldur hans er óþekktur en hann mun vera úr Reykjadal í Þingeyjarsýslu en var síðar í eigu Gísla Jónssonar á Hofi í Svarfaðardal.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=310186

 • María mey með kórónu á höfði. Þetta er lítið líkneski, einungis um 8 cm hátt, skorið úr rostungstönn. María hefur Jesú á hné sér. Talið er að líkanið sé frá 15. eða 16. öld. Það kom upp úr kirkjugarðinum á Presthólum í Núpasveit í Norður-Þingeyjarsýslu.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=356422

 • Þrjár kórónur, ásamt ýmsu öðru, saumaðar með krosssaumsporum í stafaklút frá árinu 1779. Stafaklútar voru um aldir algengar hannyrðir og oft upphafið á handavinnunámi, bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar og gengu oft í erfðir milli kynslóða. Þeir voru gerðir sem útsaumsæfing og til að eiga sem fyrirmynd að öðrum útsaumi.

  https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=337245