Safnið í sófann

„Lífið á tímum kórónaveirunnar.“

Verkefni í samtímaljósmyndun.

Þjóðminjasafn Íslands auglýsir eftir ljósmyndurum til að vinna að samtímaverkefni í að skrásetja mannlífið í landinu á tímum Covid19 faraldursins með skipulagðri ljósmyndun.

Verkefnið er sérstakt átaksverkefni í ljósmyndun mannlífs á tímum Covid-19, nú þegar áhrifa faraldursins gætir og síðan þegar að viðspyrnu kemur í samfélaginu eftir kyrrstöðu og einangrun. Verkefnið verður unnið á vegum Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni. Ráðnir verða þrír ljósmyndarar til verkefnisins. Áætlað er að það standi yfir í fimm mánuði. Ljósmyndararnir fá frjálsar hendur til að fanga áhrif faraldursins á íslenskt samfélag.

Með þessu verður safnað mikilvægu efni sem nýtast mun til rannsókna í samtíma og framtíð. Hver ljósmyndari skilar hið minnsta fullunnum 150-200 myndum og fær Þjóðminjasafnið afrit myndanna til varðveislu og afnota með fullan notkunar- og afnotarétt af myndunum. Afrakstur verkefnisins felst í mikilvægu heimildaefni og síðar í ljósmyndasýningu um áhrif Covid-19 faraldursins.

Umsóknum um verkefnaráðningu skal skilað fyrir 21. apríl á netfangið: inga.lara@thjodminjasafn.is Nánari upplýsingar eru veittar í sama netfangi. Sérstök valnefnd mun annast um verkefnaráðninguna.