Fréttir

Þjóðminjasafnið stígur grænu skrefin

19.12.2017

Umhverfisstofnun afhenti í dag Þjóðminjasafni Íslands viðurkenningu undirritaða af umhverfis- og auðlindaráðherra. Viðurkenningin var afhent við lok fyrstu tveggja áfanga Grænna skrefa. Áföngunum tveimur hefur verið náð samtímis á öllum fimm starfsstöðvum Þjóðminjasafns á Reykjavíkursvæðinu.

Þjóðminjasafnið skráði sig til þátttöku í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri í október 2016. Var það í samræmi við markmið stofnunarinnar um að leggja sitt af mörkum til bætts umhverfis og til að auka sjálfbærni í rekstri.

Grænu skrefin eru aðgengileg leið fyrir opinbera aðila til að vinna markvisst að umhverfismálum. Þau gera stofnunum kleyft að sýna ábyrgð í verki og stuðla að bættri umhverfisvitund starfsfólks. Við innleiðingu Grænna skrefa er gátlistum fylgt og eru veittar viðurkenningar fyrir hvert grænt skref sem stofnunin tekur, en þau eru alls fimm.  

Nánar má lesa um verkefnið á http://graenskref.is/