Fréttir: nóvember 2018

Ný ásýnd Þjóðminjasafns og ársaðgangur til gesta. Gjöf til gesta á 100 ára afmæli fullveldis Íslands. - 29.11.2018

Í tilefni fullveldisafmælis mun einn aðgöngumiði í Þjóðminjasafnið og Safnahúsið gilda sem árskort frá 1. desember 2018. Það tekur tíma að fara í ferðalag sem nær yfir 1200 ár. Á aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands býðst árskort í Þjóðminjasafn Íslands á kr. 2.000. Frír aðgangur er fyrir börn að 18 ára aldri. Árskort veitir aðgang að öllum sýningum og viðburðum á vegum safnsins í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og Safnahúsinu á Hverfisgötu frá fullveldisdeginum 1. desember 2018 til 30. nóvember 2019.

Lesa meira

Dagskrá fullveldishátíðar 1. desember 2018 - 29.11.2018

Ríkisstjórn Íslands efnir til fullveldishátíðar í tilefni þess að 100 ár eru liðin síðan Ísland öðlaðist fullveldi. Fjölbreyttir viðburðir ætlaðir almenningi verða í helstu menningarstofnunum þjóðarinnar auk þess sem boðið verður til veislu víða um landið. Hátíðarviðburður í Hörpu að kvöldi fullveldisdagsins verður opinn almenningi gegnum sérstaka gátt í miðasölu Hörpu. Við þessi tímamót er viðeigandi að beina sjónum til framtíðar og því var leitað til ungs fólks við undirbúning hátíðarinnar. Hugarflugsfundir voru meðal annars haldnir í samstarfi við KrakkaRÚV, RÚV núll og stúdentafélög háskólanna, auk þess sem fjöldi stofnana og félagasamtaka hefur lagt hönd á plóg. Það er því sýn ungs fólks til næstu 100 ára sem er leiðarstef dagskrárinnar.

Lesa meira