Fréttir

Nýr aðgöngumiði sem gildir í ár frá 1. desember

4.12.2018

 Gjöf til þjóðar á aldarafmæli fullveldis Íslands.

Við opnun hátíðarsýninga Þjóðminjasafnsins 24. nóvember sl. var Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra afhentur nýr aðgöngumiði að Þjóðminjasafni Íslands. Miðinn gildir sem árskort og veitir aðgang að öllum sýningum og viðburðum á vegum safnsins í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og Safnahúsinu á Hverfisgötu frá fullveldisdeginum 1. desember 2018 til 30. nóvember 2019. Nýi miðinn fæst í Þjóðminjasafni Íslands frá 1. desember og kostar hann 2000 kr. Frír aðgangur er fyrir börn að 18 ára aldri.

Þann 16. desember kl. 13 heldur Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra leiðsögn í Þjóðminjasafni. Leiðsögnin er liður í fullveldisdagskrá safnsins þar sem valinkunnir einstaklingar, sem þekktir eru fyrir störf sín í þágu samfélagsins, ræða við safngesti um hugðarefni sín. 

Á fullveldisárinu hafa þau Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir, Trausti Jónsson, veðurfræðingur, Katrín Lilja Sigurðardóttir, efnafræðingur, Stefán Pálsson, sagnfræðingur og Eliza Reid, forsetafrú haldið leiðsagnir við góðar undirtektir safngesta.