Fréttir

Undirritun samnings um myndbirtingu úr rafrænum safnmunaskrám

Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands hafa undirritað samning við Myndstef um birtingu höfundaréttarvarins efnis

21.12.2018

 Með samningnum er söfnunum kleift að birta safnkost sinn á vefnum og skólum landsins heimilt að nota efnið við kennslu og fræðslu. Um er að ræða tímamótasamning sem opnar á heimild almennings og skóla til að nota menningararf landsins til kennslu og fræðslu. Von er á að önnur söfn í landinu skrifi undir sams konar samning fljótlega.

Samningur Myndstefs, Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands um myndbirtingu höfundaréttarvarins efnis var undirritaður 20. desember að viðstaddri Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. 

Aðgengi skóla og almennings að upplýsingum úr safnmunaskrám listasafna á netinu hefur til þessa nær eingöngu einskorðast við textaupplýsingar en nú verður mögulegt að birta ljósmynd af verkum (stafræn birting) ásamt textaupplýsingum. Með þessum nýja samningi verður því íslensk sjónlist gerð mun aðgengilegri til kennslu og fyrir almenning. Samningurinn er saminn með öll söfn í huga því almennt heyrir alltaf einhver hluti safnkosts undir höfundarétt sjónlista. Öll söfn sem hafa öðlast viðurkenningu safnaráðs eða eru í eigu íslenska ríkisins og starfa eftir lögum geta gengið til samninga við Myndstef. Viðkomandi safn greiðir árlegt gjald til Myndstefs og skuldbindur sig til að gæta sæmdarréttar við skráningar og merkingar samkvæmt lögum um höfundarétt. Óheimilt verður að nota ljósmyndir sem birtast úr safnmunaskránum af höfundaréttarvörðu efni í fjárhagslegu skyni. Myndir eru vatnsmerktar en nú sem áður, þarf að hafa samband við viðkomandi safn og kaupa leyfi til slíkra nota og greiða höfundarétt af notkun í samræmi við samninga.

Þjóðminjasafn Íslands varðveitir fjölbreyttan listrænan safnkost en stærsta safnheild þess er Ljósmyndasafn Íslands þar sem nú eru um 6,7 milljón ljósmyndir. Stærstur hluti þess er í söfnum frá um 240 ljósmyndurum sem spanna tímann frá upphafi ljósmyndunar á Íslandi um 1860 og til dagsins í dag. Stór hluti ljósmyndaefnisins er í höfundarétti og hefur safnið gert sérstaka samninga við handhafa höfundaréttar, gengið frá kaupum á höfundarétti og líka fengið slíkan rétt í arf.

Í safneign Listasafns Íslands eru nú um 13.000 verk. Safnið fer sjálft með höfundarétt nokkurra listamanna sem hafa ánafnað safninu eða þjóðinni þann rétt. Eins eru verk listamanna sem ekki eru lengur í höfundarétti í safneign Listasafns Íslands. Markmiðið er að koma myndum af safnkosti safnsins á vefinn í áföngum á næstu misserum og veita með því ríkulegt aðgengi að íslenskri listasögu, ekki síst samtímalistar.

Það er söfnunum mikilvægt að ganga til þessara samninga við Myndstef í ljósi þess að ákveðin óvissa hefur ríkt um heimildir safna til birtinga úr safnmunaskrám á netinu. Safnmunir Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands eru skráðir á www.sarpur.is

Mynd með frétt er tekin við undirritunina í Listasafni Íslands:
F.v. Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, Ragnar Th Sigurðsson, formaður Myndstefs og Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands. Myndin var tekin við undirritunina í Listasafni Íslands þann 20. desember 2018. ©Myndstef