Fréttir

Setberg afhent Háskóla Íslands

21.12.2018

Fimmtudaginn 20. desember afhenti Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður Háskóla Íslands húsið Setberg til afnota. Með tilkomu nýs varðveislu- og rannsóknaseturs Þjóðminjasafns Íslands á Tjarnarvöllum, gafst færi á að þétta raðir starfemi Þjóðminjasafnsins úr fimm starfsstöðvum í fjórar. Setberg hýsti áður aðalskrifstofur Þjóðminjasafns og er staðsett norðan við Aðalbyggingu Háskólans. Setberg verður nú nýtt af Háskóla Íslands fyrir ýmsa þróunarvinnu í tengslum við kennslu, þar verða kennslustofur og aðstaða fyrir kennara til að tileinka sér rafræna kennsluhætti. 

Við afhendingu hússins fluttu þau Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, stutt ávörp þar sem undirstrikað var hversu gott samstarf stofnananna tveggja og ráðuneytisins hefði verið í tengslum við undirbúning afhendingar hússins. Að ávörpum loknum var gestum boðið að skoða húsakynnin sem brátt munu hýsa fjölbreytta starfsemi sem tengist kennslu í Háskóla Íslands. Sjá nánar frétt á vefsíðu Háskóla Íslands. 
https://www.hi.is/frettir/setberg_verdur_hus_kennslunnar_i_haskola_islands?fbclid=IwAR2cg1p6nRUZpQT-XrJIZIZ0fd1prYC_Pv4cUTqdtvpkBxMru-_C5F2gAxk