Fréttir

Verk Sölva Helgasonar

4.6.2019

Í Listasafni Reykjavíkur stendur yfir sýning á verkum Sölva Helgasonar: Blómsturheimar. Á sýningunni eru 18 áður óþekkt verk eftir Sölva sem varðveist hafa í Danmörku. Flest verkin á sýningunni eru þó fengin að láni frá Þjóðminjasafni Íslands og Landsbókasafni Íslands auk eins höfuðverks sem Minjasafnið á Akureyri varðveitir. 

Sölvi Helgason (1820-1895), eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig líka, er tvímælalaust einn af áhugaverðustu alþýðulistamönnum sem þjóðin hefur alið, heillandi utangarðsmaður í lífshlaupi sínu og listsköpun. Flakkari, fræðimaður og listamaður, en líka kenjóttur sérvitringur sem fór á svig við mannanna lög og reglur og var hegnt fyrir með fangelsisvist. Í Þjóðminjasafni Íslands eru varðveitt fjöldi verka eftir Sölva og er hluti þeirra til sýnis í Listasafni Reykjavíkur.   Á vefnum Sarpur.is má sjá nokkur verk Sölva í eigu Þjóðminjasafns Íslands.