Fréttir

Má bjóða þér til Stofu?

11.6.2019

Í tilefni 75 ára afmælis lýðveldisins 17. júní kl. 14 opnar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, barna og fjölskyldurýmið Stofuna í Þjóðminjasafni Íslands. Stofa er nýtt rými fyrir börn og fjölskyldur, skólahópa og alla forvitna gesti. Hún breytist eftir þörfum úr stofu í baðstofu, rannsóknarstofu eða kennslustofu. 

Í skápum og skúffum Stofunnar er úrval forngripa úr fórum safnsins. Gripirnir vekja margar spurningar og eru frá mismunandi tímabilum sögunnar. Til hvers voru þeir notaðir? Hvað tengir þá eða aðgreinir? Er vitað hver átti þá? Má lesa gerðfræðilega þróun gripanna með samanburði? Hægt er að nota snjallsíma til að fræðast um gripina.

Innst í rýminu er bæjarhóll. Hóllinn er setbekkur sem breytist eftir þörfum í knörr landnámsfólksins, baðstofu torfbæjarins eða útsýnispall yfir fortíð og framtíð. Þar má láta vel um sig fara, finna lesefni við hæfi, leika sér og spila.

Verkefnið Menntun barna í söfnum hlaut nýverið styrk úr Barnamenningarsjóði. Í Þjóðminjasafni er Stofa miðpunktur verkefnisins. Í Stofu er sköpuð nýstárleg aðstaða fyrir börn, fjölskyldur og aðra gesti. Safnkosturinn skapar kjarnann en áhugaverðar persónur, fróðleikur, leikir, snertigripir og fleira varpa áhugaverðu ljósi á hann. Menntun barna í söfnum er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands. Markmið verkefnisins er að auka þátttöku barna í menningarstarfi á söfnunum. Það er gert með því að byggja upp nýstárlega aðstöðu og heildræna hugsun sem opna aðgengi og eflir menningarlæsi.

Það er við hæfi að fyrsti áfangi Stofu sé opnaður 17. júní því hús Þjóðminjasafnsins var morgungjöf til þjóðarinnar við stofnun lýðveldisins. Á komandi mánuðum bætist ýmislegt nýtt og spennandi við Stofuna; fleiri safngripir, fræðandi leikir, fróðleiksmolar og annað skemmtilegt efni fyrir börn á öllum aldri og nýir gestgjafar safnkostsins verða kynntir til leiks.

Ókeypis aðgangur fyrir alla gesti á 17. júní í Þjóðminjasafnið á Suðurgötu og Safnahúsið við Hverfisgötu.
Verið öll velkomin!