Fréttir

Barnadagskrá á 17. júní

14.6.2019

Í tilefni 75 ára afmælis lýðveldisins 17. júní kl. 14 opnar Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, barna og fjölskyldurýmið Stofuna í Þjóðminjasafni Íslands.

 Stofa er nýtt rými fyrir börn og fjölskyldur, skólahópa og alla forvitna gesti. Hún breytist eftir þörfum úr stofu í baðstofu, rannsóknarstofu eða kennslustofu. 

Rannsóknarstofa í Stofu
Á þjóðhátíðardaginn er lögð áhersla á störf fornleifafræðinga í Þjóðminjasafni Íslands. Stofu, nýju barna- og fjölskyldurými er breytt í rannsóknarstofu milli kl. 14 og 16. Þar geta gestir spreytt sig á því að mæla hæð bæjarhólsins með hæðarhæli, skoðað fræ í víðsjá og greint þau til tegunda og sett fram sína eigin kenningu um tilgang smásteina sem finnast gjarnan í gólfum og gröfum frá fyrri tíð. 

 
Danssýning
Danshópur frá Dansstúdíó World Class (DWC) sýnir hópatriði við opnun Stofu. Danshópurinn samanstendur af 17 stúlkum á aldrinum 11 – 15 ára. Stella Rósenkranz stjórnar hópnum.
Ratleikur um fugla 


Allan daginn er hægt að fara í ratleik sem fjallar um fugla; fuglamyndir á safngripum og fugla í umhverfinu. Verkefnið er að finna fugla á grunnsýningunni Þjóð verður til í Þjóðminjasafninu, skoða fuglana við Tjörnina, og fara í Safnahúsið við Hverfisgötu og skoða fuglana á sýningunni Sjónarhorn, sem þar er.
Ókeypis aðgangur fyrir alla gesti á 17. júní í Þjóðminjasafnið á Suðurgötu og Safnahúsið við Hverfisgötu. 


Verið öll velkomin!