Fréttir

Þjóðminjasafn Íslands tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna 2020

8.5.2020

Íslensku safnaverðlaunin 2020 verða afhent í Safnahúsinu við Hverfisgötu mánudaginn 18. maí næstkomandi. Þjóðminjasafn Íslands hlýtur tilnefningu fyrir Varðveislu- og rannsóknamiðstöðvar safnsins að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði og Vesturvör í Kópavogi og útgáfu vefritsins Handbók um varðveislu safnkosts.

Með tilkomu miðstöðvanna tveggja varð gjörbreyting á aðstöðu til varðveislu og aðgengi að safnkosti Þjóðminjasafns Íslands í þágu rannsókna, menntunar og miðlunar. Skráning og vistun er grundvöllur stefnumörkunar um söfnun til framtíðar og forsenda alls safnastarfs.

Varðveislu-og rannsóknamiðstöðvarnar styðja við markmið safnastefnu á sviði menningarminja, þar sem aðstæður eru fyrir starfsfólk til þess að vinna faglega með safnkostinn við miðlun og sýningagerð.

Í umsókn valnefndar segir að „varðveislu- og rannsóknarsetur Þjóðminjasafns Íslands í Hafnarfirði og Kópavogi ásamt Handbók um varðveislu safnkosts sé mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.“

Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem er viðurkenning veitt annað hvert ár íslensku safni fyrir framúrskarandi þætti í starfsemi sinni. 

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir safnaverðlaunin við hátíðlega athöfn þann 18. maí næstkomandi. Vegna fjöldatakmarkana verður streymt frá athöfninni á samfélagsmiðlum.