Fréttir

Þjóðminjar í öruggri vörslu hjá Þjóðminjasafni Íslands

27.10.2020

Málefnaleg og þörf umræða í fréttaskýringaþættinum Kveik 8. október sl. varpaði ljósi á mikilvægi varðveislu íslenskra menningarverðmæta. Í þættinum kom fram að víða eru ófullnægjandi aðstæður til varðveislu menningararfsins en aðeins gafst þar ráðrúm til að tæpa á þessu mikilvæga málefni sem varðar öryggi menningarminja um land allt. Fjallað var um aðstæður fjölmargra opinberra stofnana sem gegna því lögbundna hlutverki að varðveita menningu og sögu þjóðarinnar. Bent var á að stjórnsýsla safna og menningarstofnana er dreifð og flókin og sérhæfing mismunandi. Það kallar á samræmd viðbrögð stjórnvalda og aukna áherslu á samhenta stjórnsýslu í málaflokknum. Sameiginleg sýn allra sem að honum koma er þó að sjálfsögðu sú að tryggja örugga varðveislu minja, sem og gott aðgengi til þekkingarsköpunar og þróunar. Safnastefna og ný heildarstefnumótun um málefni menningararfs undirstrikar mikilvægi þessa. Verðug verkefni eru framundan við innviðauppbyggingu á fagsviðinu. Stjórnvöld hafa þegar markað stefnu um úrbætur, sem birtist m.a. í nýrri áætlun um ríkisfjármál, og gefur hún fyrirheit um spennandi og samhent átak á komandi árum. Í þessu samhengi er þó full ástæða til að minna á að margt hefur áunnist og mikilvægar ákvarðanir til úrbóta verið teknar í safna- og varðveislumálum í gegnum tíðina.

Þjóðminjasafn Íslands hefur í áratugi beitt sér fyrir öruggri varðveislu minja og býr nú við kjöraðstæður til miðlunar og varðveislu þjóðminja eins og fram kom í þætti Kveiks. Á þeirri áratugalöngu vegferð urðu þó ýmis áföll. Þannig brunnu 18 bátar í varðveislu Þjóðminjasafnsins í apríl 1993 þegar kveikt var í bátageymslu safnsins, en þar skorti á brunavarnir og annað eftirlit. Þá varð hin friðaða Krýsuvíkurkirkja íkveikju að bráð í ársbyrjun 2010. Hún var ómetanlegur hluti af húsasafni safnsins sem telur á sjöunda tug húsa. Góðu heilli voru til traustar heimildir um kirkjuna og uppmælingar af henni en hún var byggð árið 1857. Á grundvelli þeirra heimilda og handverksþekkingar hafa kennarar og iðnnemar Tækniskólans í Hafnarfirði endurbyggt kirkjuna í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og Vinafélag Krýsuvíkurkirkju. Á dögunum var svo endurgerðri kirkju komið aftur fyrir á sínum stað, réttum áratug eftir brunann. Það er ánægjulegur áfangi og árangur sem er ekki síst fólginn í menntun fjölmargra iðnnema í viðgerðum og endurgerð gamalla húsa.


Þjóðminjasafnið er lögum samkvæmt höfuðsafn á sviði menningarminja og er ætlað að vera leiðandi á sínu sviði. Það hefur því ríku hlutverki að gegna og starfar náið með viðurkenndum söfnum um allt land um varðveislu minja allt frá landnámi. Því starfi lýkur aldrei, stöðugt þarf að vera á varðbergi þar sem þekking og nýsköpun á þessu sviði er í sífelldri þróun. Á 150 ára afmæli safnsins árið 2013 markaði mennta- og menningarmálaráðherra stefnu um að kjöraðstæður yrðu skapaðar til varðveislu þjóðminja og safneignar safnsins. Frá þeirri stefnu hefur ekki verið hvikað. Ný Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns Íslands var vígð 5. desember 2019. Með þeim áfanga var brotið blað í þjóðminjavörslu og safnastarfi hér á landi. Í Varðveislu- og rannsóknamiðstöðinni eru þjóðminjar varðveittar við bestu aðstæður og gerbreyting hefur orðið á aðgengi að safnkosti til rannsókna, menntunar og miðlunar. Fyrir þennan áfanga hlaut Þjóðminjasafn Íslands hin íslensku safnaverðlaun 2020. Í umsögn dómnefndar segir að „Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns Íslands í Hafnarfirði og Kópavogi ásamt Handbók um varðveislu safnkosts sé mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.“ Flókið tæknirými er í hinu sérhæfða öryggishúsnæði og búnaður sem gerir kleift að stjórna raka- og hitastigi fyrir hvern munaflokk. Flokkum er skipað niður í rými þar sem hita og raka er stjórnað eftir þörfum. Þær eru mismunandi eftir því hvort munir eru úr lífrænum efnum, jarðfundnir munir úr málmum og þannig mætti áfram telja. Í Þjóðminjasafninu er nú aðstaða til að taka við, rannsaka og varðveita það sem finnst við fornleifarannsóknir. Samtímis hefur varðveislumálum safnkosts Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni verið tryggðar sérhæfðar aðstæður fyrir varðveislu ljósmynda. Þá hefur bátum og ýmsum tækniminjum verið komið fyrir í fjargeymslu á Eyrarbakka í samstarfi við Byggðasafn Árnesinga. Safneign Þjóðminjasafnsins í heild hefur verið komið vandlega fyrir, m.a. við greiningu, skráningu, flutning, pökkun, forvörslu og grisjun. Huga þurfti að forgangsröðun og gaf hið yfirgripsmikla verkefni bæði tilefni og tækifæri til þess að greina hismið frá kjarnanum í samræmi við fagmennsku og sjálfbærni í safnastarfi. Margir hafa lagt hönd á plóg; auk stjórnvalda og dugmikils starfólks ber að geta stuðnings velunnara og vina safnsins sem hafa lagt málefninu lið og lyft grettistaki, m.a. með tugmilljóna króna fjárstuðningi til kaupa á búnaði og aðstoð við framkvæmd flutninga.

Með þessum áfanga í sögu Þjóðminjasafnsins er til orðin aðstaða til þess að styrkja samvinnu þess og annarra varðveislu- og menntastofnana. Hér er vettvangur fyrir allt í senn: innra safnastarf, samstarfsaðila, sjálfstætt starfandi fagaðila, fornleifafræðinga, aðra fræði-og vísindamenn, nemendahópa og kennara.

Varðveisla menningararfsins, bæði áþreifanlegra minja og óáþreifanlegra heimilda um sögu þjóðarinnar, er grundvöllur þekkingarsköpunar og undirstaða vandaðrar miðlunar til almennings og safngesta. Áhugaverðri og spennandi miðlun er ætlað að efla menningarlæsi og vekja lifandi áhuga á lífi og kjörum fólks í fortíð og nútíð. Uppbygging og endurskipulagning Þjóðminjasafnsins felur í sér nýsköpun þar sem haldast í hendur reynsla og nýstárlegar lausnir. 


Stigin hafa verið stór skref fram á við til að tryggja að frumheimildir um mannlífið varðveitist og flytjist til komandi kynslóða, bæði til rannsókna og betri miðlunar. Varðveislan snertir almannahagsmuni og hefur gildi fyrir samfélag okkar til lengri tíma litið. Það er von okkar að fengin reynsla hjá Þjóðminjasafni Íslands geti orðið öðrum söfnum og stofnunum – sem og sveitarfélögum landsins og ríkisvaldinu – fyrirmynd og hvatning í því mikla starfi sem brýnt er að ráðast í með samstilltu átaki. Það er verk að vinna um allt land. Ábyrgðin – hvort tveggja í þjóðlegu sem alþjóðlegu samhengi – er okkar allra. 

Kveikur, 8. október 2020, þáttur um varðveislumál á menningarverðmætum, sjá hér.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður

Greinin var birt í Morgunblaðinu laugardaginn 24. október 2020