Fréttir

Starfsfólk Þjóðminjasafns Íslands tekur vel á móti fjölskyldum í vetrarfríi

15.2.2021

Heimsókn í Þjóðminjasafnið er skemmtileg og fræðandi fyrir alla fjölskylduna og við bjóðum uppá margs konar leiðir til að upplifa sýningarnar okkar. 

Til dæmis er hægt er að ganga um grunnsýninguna og spila hljóðleiðsögn fyrir börn og fullorðna í síma. Sérstök hljóðleiðsögn, Regnbogaþráðurinn, fjallar um hinsegin sögu á Íslandi. Svo er hægt að horfa á myndskeið á margmiðlunarskjáum, uppgötva litríka, viðkvæma gripi í skúffum og hlusta á leikþætti um fullorðinn og barn frá mismunandi tímaskeiðum í Íslandssögunni. Leggir og kjálkar, bóndabær með búpeningi og búaliði, myndir til að lita og útskurðarletur til að herma eftir er til taks í fjölskyldurýminu Stofu þar sem einnig eru búningar til að máta og fleira áhugavert til að spjalla um eða leika sér með.

Boðið verður upp á efnivið í tvær smiðjur sem fjölskyldur geta sest við á eigin vegum á meðan á vetrarfríunum stendur. Annars vegar drifsmíði og hins vegar Leikur að ljósi, smiðja með endurunnu efni í anda steinglersglugga.

Í safninu eru þrjár sérsýningar; Teiknað fyrir þjóðina - yfirlitssýning á verkum Halldórs Péturssonar, Tónlist, dans og tíska – með ljósmyndum Vigfúsar Sigurgeirssonar frá árum seinni heimstyrjaldarinnar og Hofstaðir - Saga úr jörðu sem fjallar um fornleifarannsóknir á Hofstöðum í Mývatnssveit. Einnig er uppi örsýning sem byggir á efni þáttanna Víkingaþrautin úr Stundinni okkar. Þar gefst gestum kost á að skoða gripina sem koma fyrir í þáttunum, spreyta sig við að ráða rúnir og máta búninga í anda víkingatímans. Í tilefni af Víkingaþrautinni vígjum við nýjan ratleik um grunnsýninguna sem felst í því að finna sýningargripi með rúnaristum á.

Ný reglugerð um samkomutakmarkanir leyfir allt að 150 gesti í söfnum (með hliðsjón af fermetrafjölda). Það er því nóg pláss fyrir alla á safninu.

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og frítt fyrir börn yngri en 18 ára. Árskort kostar 2.000 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu og Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Verið öll velkomin.