Fréttir

Þjóðminjasafn Íslands tekur vel á móti fjölskyldum í vetrarfríi: Smiðjur - barnaleiðsagnir og ratleikir

13.10.2021

Heimsókn í Þjóðminjasafnið er skemmtileg og fræðandi fyrir alla fjölskylduna og við bjóðum uppá margs konar leiðir til að upplifa sýningarnar okkar. Ókeypis fyrir börn yngri en 18 ára.

Hægt er að ganga um grunnsýninguna og spila hljóðleiðsögn fyrir börn og fullorðna í síma. Sérstök hljóðleiðsögn, Regnbogaþráðurinn, fjallar um hinsegin sögu á Íslandi. Svo er hægt að horfa á myndskeið á margmiðlunarskjáum, uppgötva litríka, viðkvæma gripi í skúffum og hlusta í heyrnartólum á leikþætti um fullorðinn og barn frá mismunandi tímaskeiðum í Íslandssögunni. Leggir og kjálkar, bóndabær með búpeningi og búaliði, myndir til að lita og smiðjur út frá Valþjófsstaðahurðinni eru til taks í fjölskyldurýminu Stofu þar sem einnig eru búningar til að máta og fleira áhugavert til að spjalla um eða leika sér með.

Riddarinn, ljónið og rúnaristurnar. Barnaleiðsögn með Valþjófsstaðahurðina í brennidepli

Leiðsögn fyrir börn er kl. 11 og kl. 14 bæði föstudaginn 21. og þriðjudaginn 25. október

Valþjófsstaðahurðin merka geymir margar sögur og mikil ævintýri. Á henni má sjá riddarasögu og drekavafning, auk fleiri atriða svo sem áletranir með rúnaletri. Hún verður aðalefni barnaleiðsagnarinnar en kannski skoðum við líka fleiri merkilega gripi og leitum þá sérstaklega uppi gripi sem sýna riddara, ljón, dreka, fugla eða rúnir. Uppfull af sögunum sem gripirnir segja endum við heimsóknina í fjölskyldurýminu Stofu þar sem vinna má sína eigin frásögn með þessum söguhetjum í formi ljóðs eða myndasögu. Í Stofu verður einnig rúnasmiðja þar sem vinna má sína eigin bandrún og færa yfir í stimpil.

Rúnir og galdrastafir – kynngimögnuð kynning og smiðja fyrir börn

Smiðja og fræðsla stendur yfir laugardaginn 22. október frá kl. 14 til 16

Rúnir og galdrastafir er stór en kannski svolítið gleymdur hluti af íslenskri sögu. Börn og fjölskyldur eru velkomin í safnið laugardaginn 22. október á milli kl. 14 og 16 að fræðast um gamla siði og hugsunarhátt fólks á þeim tíma sem notkun rúna og galdrastafa var í hámarki. Í smiðju verður hægt að kynnast nánar eldra fuþarkinu, sem er gömul gerð af rúnastafrófinu, og notkun og gerð galdrastafa. Gestir geta farið í leit að rúnaristum um safnið, það má spreyta sig á gerð galdrastafa og bandrúna eða að skrifa nafnið sitt eða einhver skilaboð með eldra rúnastafrófinu. Í framhaldi verða svo skilaboðin hengd á skilaboðatré og hver veit nema það sé svolítill galdur fólginn í því!

Smiðjan er unnin í samstarfi við nemendur á Myndlistarkjörsviði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, sem stýra smiðjunni.

Ratleikur og safnabingó

Ratleikir eru góð leið til að kynnast grunnsýningu safnsins á líflegan hátt. Leikirnir henta allri fjölskyldunni og er sérstaklega gaman fyrir foreldra og börn að leysa þrautirnar saman. Hægt er að nálgast ratleikina í móttöku Þjóðminjasafnsins og eru viðfangsefnin margbreytileg.

Sýningar

Í safninu er grunnsýningin Þjóð verður til sem spannar 12 aldir Íslandssögunnar og tvær sérsýningar; Á 11. stundu - um uppmælingaleiðangra danskra arkitektanema til Íslands að skrásetja torfbæi, og Úr mýri í málm sem fjallar um járnvinnslu á fyrstu öldum byggðar í landinu. Sýningarnar gefa gott tækifæri fyrir fjölskyldur að fræðast og ræða saman um sögu lands og þjóðar.

Aðgöngumiði í safnið gildir. Ókeypis fyrir handhafa árskorts og frítt fyrir börn yngri en 18 ára. Árskort kostar 2.500 kr. og gildir á allar sýningar og viðburði á Þjóðminjasafninu.

Þjóðminjasafnið er opið alla daga frá kl. 10 - 17 nema mánudaga.

Verið öll velkomin og góða skemmtun!