Fréttir

Síðasta sýningarhelgi í Myndasal

12.3.2021

Sunnudagurinn 14. mars er síðasti dagur sýninganna „Teiknað fyrir þjóðina. Myndheimur Halldórs Péturssonar“ og „Tónlist, dans og tíska, ljósmyndir Vigfúsar Sigurgeirssonar.

Fáir hafa teiknað sig eins djúpt í hjarta þjóðarinnar og listamaðurinn Halldór Pétursson (1916–1977). Á blómatíma hans, sem teygði sig yfir marga áratugi, voru verk hans alltumlykjandi í íslensku samfélagi. Hann myndskreytti fjöldann allan af bókum, teiknaði forsíður vinsælla tímarita, vann að frumhönnun frímerkja og peningaseðla og teiknaði andlitsmyndir.

Sýningin Teiknað fyrir þjóðina. MyndheimurHalldórs Péturssonar er yfirlitssýning á verkum og þar eru sýndar teikningar, skissur og fullunnin verk Halldórs frá barnæsku til æviloka. Í marga áratugi var handbragð Halldórs víðfrægt í íslensku samfélagi og hefur hann löngum verið talinn einn ástsælasti teiknari þjóðarinnar.

Á sýningunni Tónlist, dans og tíska eru sýndar ljósmyndir Vigfúsar Sigurgeirssonar (1900–1984) ljósmyndara frá árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Vigfús var einn allra þekktasti ljósmyndari og kvikmyndagerðamaður Íslands á fyrri hluta 20. aldar.

Unnar Örn Auðarson, sýningarstjóri og listamaður, fer með gesti um sýninguna Teiknað fyrir Þjóðina sunnudaginn 14. mars kl. 14.

Verið öll velkomin.