Fréttir

Minningaorð. Þórður Tómasson í Skógum

5.2.2022

Með fáum orðum minnumst við Þórðar Tómassonar í Skógum. Þórður var safnvörður Skógasafns frá stofnun þess árið 1949 og starfaði þar um áratuga skeið fram á efri ár. Hann var safnmaður af heilum hug og sinnti starfi sínu af mikilli hugsjón og framsýni. Safnsvæði Skógasafns ber þess fagurt vitnis. Hann var metnaðarfullur fagmaður sem ávallt vildi veg Skógasafns sem mestan. Honum var þar annt um hvert framfaraskref, gömlu húsin sem unnt var að hlúa að á svæðinu, safnhúsin sem hýstu faglega starfsemi og safnkirkjuna fögru sem vígð var fyrir tveimur áratugum. Þórður bauð gesti ávallt velkomna í safnið og fræddi, spilaði og söng af einlægri gestrisni og starfsgleði. Með safnastarfi sínu var honum annt um að varðveita einkenni þess samfélags sem umbyltist með iðnvæðingunni og leggja jafnframt grunn að framtíðarstarfi sem byggði á gömlum merg þekkingar. Þar sá hann fyrir sér framsækið safn á tímum ferðaþjónustu og faglegra áherslna samtímans. Hann gladdist yfir árangri og góðu starfi arftaka sinna í safninu og miðlaði til þeirra af sinni reynslu. Vert er að þakka hið ríkulega veganesti Þórðar til framtíðar.

Þórður var virtur fræðimaður og var menningararfurinn og saga fólksins í landinu honum hugleikið efni. Í sínum fræðistörfum var honum umhugað um að varðveita þekkingu um starfshætti í landinu og hefðir genginna kynslóða. Eftir Þórð liggja tugir bóka um þjóðmenningu og þjóðhætti liðins tíma. Þá tók hann þátt í útgáfu tímaritsins Goðasteins um árabil auk þess að rita greinar um þjóðlegan fróðleik og safnastarf. Árið 1997 var Þórður gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands. Þá var hann heiðursfélagið í samfélagi þjóðminjavörslu og safnastarfs.

Þórður var traustur samstarfsmaður um áratugaskeið og kær vinur. Við ræddum reglulega saman og ferðuðumst um Suðurlandið, heimsóttum fólk og sögustaði, já og snæddum kjötsúpa þegar svo bar við. Í samverustundum okkar var rætt um minjar og safnastarf sem og bækur sem hann hafði á prjónunum, söguleg hús sem hann vildi bjarga og þjóðleg fræði hvers konar. Við ræddum einnig um hvernig taka mætti höndum saman til þess að ná sem bestum árangri. Á ferðum okkar og fundum sló Þórður gjarnan á létta strengi og fór með vísur, rakti ættir og sagði sögur. Ótal minningar koma upp í hugann um fróðleiksmanninn og sögumanninn Þórð í Skógum. Á tímamótum í lífi Þórðar gladdi hann ekkert fremur en áform um verndun menningarminja og þá sérstaklega torfhúsa sem hann vissi að tímans tönn myndi annars granda. Þar brýndi hann til góðra verka og hvatti til dáða. Hann var maður traustrar samvinnu og góðra samskipta.


Fyrir ári síðan fögnuðum við tíræðisafmæli Þórðar Tómassonar í Skógum. Af því tilefni sendi Þórður frá sér bók um Stóruborg undir Eyjafjöllum sem var hans þrítugasta bók. Á afmælidaginn tók hugsjónamaðurinn Þórður til máls við hátíðlega athöfn í Skógasafni þar horfði yfir farinn veg með afar eftirminnilegum hætti. Það var dýrmætt að fá tækifæri til þess að samgleðjast með honum á afmælisdaginn. Ég met mikils okkar hlýju samskipti og þakka fjölmargar gæðastundir á liðnum áratugum. Undanfarin ár hefur verið einstaklega ánægjulegt að heimsækja Þórð og Guðrúnu systur hans og njóta gestrisni á hlýlegu heimili þeirra. Minningar um gæðastundir lifa. Með þökk og hlýju votta ég Guðrúnu mína innilegustu samúð.

Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands þökkum við Þórði fyrir hans ómetanlega framlag hans til íslenskrar menningar. Heiðruð sé minning Þórðar Tómassonar í Skógum.

Fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands

Margrét Hallgrímsdóttir

þjóðminjavörður