Fréttir

Bókhlaðan í Flatey í umsjón Þjóðminjasafns Íslands

21.8.2019

Laugardaginn 17 ágúst síðastliðinn tók Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra við bókhlöðunni í Flatey að gjöf fyrir hönd Ríkssjóðs frá Reykhólahreppi við athöfn í bókhlöðunni. Síðan fól mennta- og menningarmálaráðherra þjóðminjaverði bókhlöðuna til varðveislu í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Það er ávallt fagnaðarefni þegar hús bætist við húsasafn Þjóðminjasafns Íslands. Með bókhlöðunni í Flatey eru húsin í húsasafninu orðin 62 á 41 minjastað um land allt. Á Vesturlandi og Vestfjörðum voru fyrir í húsasafninu Reykholtskirkja, Staðarkirkja í Reykhólasveit, Hraunskirkja í Keldudal, Litlibær í Skötufirði, vindmylla og Viktoríuhús í Vigur og hjallur í Vatnsfirði. Uppistaðan í húsasafni Þjóðminjasafnsins ef litið er til byggingarefnis eru torfhúsin 33 að tölu, timburhúsin eru 21, steinhlaðin hús eru 5 og steinsteypt hús 3.

Bókhlaðan var byggð árið 1864 til að hýsa bókasafn Framfarastofnunar Flateyjar sem stofnuð var árið 1833 af Ólafi Sívertsen prófasti og kona hans Jóhönnu Friðriku Eyjólfsdóttur til að efla upplýsingu, siðgæði og dugnað í Flateyjarhreppi. Stofnunin reiddi fram 195 ríkisdali til smíðinnar en kostnaður varð hins vegar 558 ríkisdalir og lögðu Herdís og Brynjólfur Benedictsen kaupmaður í Flatey fram það sem á vantaði. Bókhlaðan var reist nokkru vestar en hún er nú, eða á þeim stað sem Flateyjarkirkja var byggð árið 1926, en þá bókhlaðan flutt austar á Bókhúsflötinni.

Bokhladan_2Bókhlaðan í Flatey, veggir klæddir máluðu listaþili og þak tjargaðri rennisúð. Um útidyr er nýklassískur umbúnaður, rásaðar hálfsúlur og undir þeim sléttur súlufótur en súluhöfðuð skreytt blómaskurði og strikaður bjór yfir. 

Á 19. öld voru reistar fáeinar bókasafnsbyggingar; það elsta var reist 1851við Aðalstræti 40 á Akureyri og var síðar breytt í íbúðarhús, önnur í röðinni var bókhlaðan í Flatey 1864 og loks Íþaka 1866, bókhlaða Menntaskólans í Reykjavík. Bókhlaðan í Flatey var reist á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga þegar sjálfstæðisvitund fór vaxandi. Má rekja stofnun lestrarfélaga víða um land til þessara breytingar. Jafnframt urðu á þessum tíma miklar breytingar í íslenskri byggingarlist þegar nýklassískra áhrifa fór að gæta í timburhúsum svo sem með aukinni vegghæð, máluðu listaþili, tjargaðri súð og strikuðum súlufótum við dyr með strikuðum bjór yfir. Bókhlaðan er því augljós vitnisburður um tíðarandann sem ríkjandi var upp úr miðri 19. öld þegar landsmenn lögðu grunn að sjálfstæði þjóðarinnar og betri lífsafkomu. Því er bókhlaðan í Flatey mikilvæg viðbót við þann safnkost sem húsasafn Þjóðminjasafns Íslands varðveitir.

Talið er að yfirsmiður bókhlöðunnar hafi verið Niels Björnsson forsmiður en hann er talinn vera yfirsmiður Sauðlauksdalskirkju 1863 og vann að smíði Flateyjarkirkju 1865-1866. Bókhlaðan var friðuð í A-flokki af menntamálaráðherra 2. apríl 1975 samkvæmt 1. mgr. 26. gr. og 27. gr. þjóðminjalaga nr. 52/1969. Gert við bókhlöðuna 1979-1981 á vegum Flateyjarhrepps undir stjórn Þorsteins Bergssonar og var verkinu síðan lokið á árunum 1986-1988 undir stjórn Minjaverndar sem tók jafnframt að sér varðveislu hússins til 30 ára. Arkitekt viðgerðarinnar var Hjörleifur Stefánsson.

Bókhlaðan er timburhús með krossreist þak, 5,2 m að lengd og 3,9 m á breidd. Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli, veggir eru klæddir listaþili og þak rennisúð og gengið frá því með trérennum og niðurföllum. Tveir sex rúðu gluggar með miðpóst eru á hvorri húshlið og einn heldur minni á framstafni uppi yfir dyrum. Til hliðar við glugga eru rásaðir faldar, strikuð brík að ofan en vatnsbretti undir, hvilftað neðanvert. Fyrir útidyrum eru tvöfaldar vængjahurðir, okahurðir að utan en spjaldsettar að innan með spjöldum sneiddum í lága píramíta. Hvorum megin dyra eru rásaðar hálfsúlur, undir þeim er sléttur súlufótur en súluhöfðuð skreytt blómaskurði og strikaður bjór yfir.

Húsið er eitt herbergi og yfir því bitar, strikaðir á brúnum, og gólfborð rislofts. Stigi til loftsins er í norðvesturhorni. Veggir eru klæddir spjaldaþili og hið innra er bókhlaðan ómáluð. Á loftinu er skarsúð á sperrum en gaflar óklæddir.