Fréttir

Dagskrá Þjóðminjasafns Íslands í tilefni 100 ára fullveldisafmælis

12.11.2018

Hátíðardagskrá Þjóðminjasafns Íslands er liður í veglegri dagskrá 100 ára afmælis fullveldis Íslands

17. nóvember kl. 14. - Regnbogaþráðurinn – bæklingur og hljóðleiðsögn um grunnsýningu Þjóðminjasafns

Regnbogaþráður, hinsegin vegvísir um grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands, Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár, var opnaður laugardaginn 17. nóvember kl. 14:00. Að verkefninu standa Þjóðminjasafn Íslands og Samtökin ‘78 í tilefni 40 ára afmælis Samtakanna.
Um er að ræða bækling og hljóðleiðsögn á íslensku og ensku sem leiðir gesti í gegnum sýninguna og veltir upp ýmsum hinsegin hliðum á Íslandssögunni og íslensku þjóðinni. Markmiðið með Regnbogaþræðinum er að miðla upplýsingum um hinsegin líf og tilveru, sýna hvernig hugmyndir um kyn og kynhneigð taka á sig ýmsar myndir á ólíkum tímum og ekki síst að spyrja spurninga, skoða hið ósagða og hvetja gesti til gagnrýninnar hugsunar. 

http://www.thjodminjasafn.is/english/for-visitors/the-national-museum/visitor-informations/audio-guide/regnbogathradur

24. nóvember kl. 14. – Opnun hátíðarsýninga í Þjóðminjasafni Íslands

Hátíðarsýningar Þjóðminjasafnsins verða opnaðar 24. nóvember kl. 14 og eru þær helgaðar kirkjum Íslands. Sýningarnar eru hluti af hátíðardagskrá í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir opnar hátíðarsýningarnar.

Ávörp flytja:

  • Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður
  • Poul Grinder-Hansen, frá Þjóðminjasafni Dana
  • Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands
  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra opnar sýninguna

Spilmenn Ríkínís flytja tónlist við opnun.

Í Bogasal; Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur

Í Bogasal verður opnuð sýningin Kirkjur Íslands: Skrúði og áhöld. Straumar og stefnur. Á sýningunni er fjallað um kirkjugripi og hvernig þeir tengjast straumum og stefnum í hinni alþjóðlegu listasögu. Ný og einstæð yfirsýn hefur fengist á kirkjugripi í friðuðum kirkjum landsins í tengslum við útgáfu bókaflokksins um Kirkjur Íslands sem nú hefur komið út í 31 bindi. Ritröðin er gefin út í samstarfi við Biskupsstofu og Minjastofnun Íslands. Sýningin er unnin í samstarfi við kirkjur og menningarminjasöfn landsins sem lána gripi á sýninguna. Þjóðminjasafn Íslands kann öllum samstarfsaðilum miklar þakkir fyrir gefandi og traust samstarf.

Sýningarhöfundar: Lilja Árnadóttir og Nathalie Jacquminet

Sýningin er í sterku samhengi við grunnsýningu Þjóðminjasafns þar sem Keldnaskrínið frá 13. öld er til sýnis með öðrum merkum miðaldagripum kaþólsku kirkjunnar frá 13.-16. öld. Gestum verði vísað þar um.

Í Myndasal; Kirkjur Íslands: Með augum biskups og safnmanna. 

Kirkjur og kirkjugripir urðu þremur mönnum rannsóknarefni á 20. öld og allir skráðu þeir rannsóknir sínar með myndrænum hætti: Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Jón Helgason biskup og Þór Magnússon þjóðminjavörður. Úrval mynda þessara þriggja manna veita innsýn í íslenskar kirkjubyggingar og þann menningararf sem þær hafa að geyma.

Sýningarhöfundur: Ívar Brynjólfsson.

Á Vegg og í Horni. 

Á Vegg verða sýndar myndir Heiðu Helgadóttur, ljósmyndara, af trúarlífi í samtíma. Titill sýningarinnar er NÆRandi.

Sýningarhöfundur: Heiða Helgadóttir

Fyrr á árinu var opnuð í Horni sýningin Kirkjur Íslands: Leitin að klaustrunum. Sýningin byggir á rannsókn Steinunnar Kristjánsdóttur, prófessors í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. 

Sýningarhöfundur: Steinunn Kristjánsdóttir.

http://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/sersyningar/syningar-i-gangi/leitin-ad-klaustrunum

Fullveldisdagurinn 1. desember

Ný ásýnd Þjóðminjasafns og ársaðgangur til gesta. Gjöf til gesta á 100 ára afmæli fullveldis Íslands.

Í tilefni fullveldisafmælis mun einn aðgöngumiði í Þjóðminjasafnið og Safnahúsið gilda sem árskort frá 1. desember 2018. Það tekur tíma að fara í ferðalag sem nær yfir 1200 ár. Á aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands býðst árskort í Þjóðminjasafn Íslands á kr. 2.000. Frír aðgangur er fyrir börn að 18 ára aldri. Árskort veitir aðgang að öllum sýningum og viðburðum á vegum safnsins í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og Safnahúsinu á Hverfisgötu frá fullveldisdeginum 1. desember 2018 til 30. nóvember 2019.Arsmidinn

Þá er  ásýnd Þjóðminjasafns Íslands kynnt í tilefni fullveldisafmælisins. Hún markast af sterkum litum, með skýra tilvísun í þjóðminjar og menningararf. Hin nýja mörkun felur í sér nýtt fyrirsagnaletur sem er samansett úr fjórum leturgerðum sem hafa verið notaðar á Íslandi í gegnum aldirnar: Íslenskar fúþark rúnir voru í almennri notkun í útskurði hér á landi frá landnámi og út 19. öld. Fraktúrletur eða gotneskt letur vísar í leturgerðina í miðaldahandritum og í prentverki fram að 20. öld. Höfðaletur er séríslensk leturgerð sem notuð var í útskurði á ýmsum skrautmunum frá 16. öld. Greta Sans letrið sem tekið verður upp hjá safninu almennt flokkast undir steinskrift og vísar til nútímans.

 #fullveldisdagurinn. Ókeypis aðgangur á fullveldisdaginn.

Fáni sem flaggað var við stjórnarráðið 1. desember 1918 sýndur í anddyri.

Stjórnarfáni Íslands, klofinn ríkisfáni, sem dreginn var að húni á Stjórnarráðshúsinu sunnudaginn 1. desember 1918, þegar sambandslögin gengu í gildi og Íslendingar fögnuðu fullveldi, verður til sýnis í anddyri Þjóðminjasafns Íslands.

Þessi tiltekni fáni var notaður við Stjórnarráðshúsið í fáeina mánuði. Hann er í ýmsu frábrugðinn tillögum fánanefndarinnar frá 1914 um þjóðfána Íslands. Til að mynda er blái liturinn í þessum fána grænleitari en vera skal og rauði liturinn er dekkri en kveðið er á um. Hvítu ræmurnar eru úr lérefti, en samkvæmt reglum skulu allir hlutar fánans vera úr ullardúk, svokölluðum fánadúk. Fáninn hefur því sennilega verið gerður í nokkrum flýti. 1. desember 1918 hafði heldur ekki verið gengið frá ákvæðum um gerð stjórnarfána Íslands. Fáninn er mun styttra klofinn en ákvæðin sögðu svo til um. Þetta skýrir líklega að hluta til hvers vegna fáninn var ekki notaður lengur en raun ber vitni, sem og hversu illa hann hefur farið á þessum stutta notkunartíma.

Hvítbláinn í grunnsýningu Þjóðminjasafns.

Á fyrstu árum 20. aldar var oft flaggað með fána af þessari gerð án þess að yfirvöld fyndu að því. Samkvæmt lögum var ekki leyfilegt að flagga öðru en danska þjóðfánanum á skipum sem tilheyrðu danska ríkinu. Þess vegna tók samviskusamur danskur skipherra þennan fána, sem til sýnis er á grunnsýningu safnsins, af Einari Péturssyni sem hafði dregið hann upp á kappróðrarbáti á Reykjavíkurhöfn. Þetta varð tilefni fjölmennra mótmælaaðgerða. Árið 1915 fengu Íslendingar loks eigin fána.

Sjá nánar: http://sarpur.is/Adfang.aspx

1.desember kl. 13 og 15. Lifandi leiðsögn Leynileikhússins. Endurtekið 2. desember kl. 13 og 15

Með ungum augum – lifandi leiðsögn Leynileikhússins um grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands og hátíðarsýningarnar

Hvernig sjá ung augu fornan menningararf Íslands? Í hvaða áttir beina túlkendur á unglings- og barnsaldri hugsun gesta um söguna? Til að komast að þessu eru forvitnir gestir á öllum aldri velkomnir í lifandi leiðsögn fjögurra ungra sviðslistanema hjá Leynileikhúsinu. Gestum er boðið að ganga í gegnum grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár og hátíðarsýninguna Kirkjur Íslands í Bogasal, Horni og Myndasal í fylgd ungra, skapandi huga.

http://www.thjodminjasafn.is/syningar-vidburdir/vidburdir,vef-og-farandsyningar/hvad-er-framundan/med-ungum-augum-lifandi-leidsogn-leynileikhussins

1. desember. Veröld. Hús Vigdísar, Háskóli Íslands

Afhending tveggja nýdoktorastyrkja

Fyrr á árinu voru auglýstir tveir nýdoktorastyrkir vegna 100 ára afmælis sjálfstæðis Íslands. Fyrir styrkveitingunni stendur Carlsberg sjóðurinn og buðust tveir nýdoktorastyrkir, hvor um sig í tvö ár. Verkefnið er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands og Þjóðarsögusafnsins í Friðriksborgarkastala (Nationalhistorisk Museum i Fredriksborg Slot) og Háskóla Íslands. Rektor Háskóla Íslands, þjóðminjavörður og safnstjóri Þjóðarsögusafnsins í Friðriksborg munu undirrita samkomulag um samstarf stofnanna af þessu tilefni en markmiðið er að styrkja samstarfs háskólans og safnanna til framtíðar litið.

Nýdoktorstöðurnar verða afhentar að viðstaddri Danadrottningu.

6. desember

Jónshús í Kaupmannahöfn – Heimili Ingibjargar og Jóns. Miðstöð Íslendinga í Kaupmannahöfn 1851-1879

Þann 6. desember verður opnuð sýning á heimili Ingibjargar Einarsdóttur og Jóns Sigurðssonar í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Heimili Ingibjargar og Jóns er endurgert á grundvelli heimilda um líf þeirra hjóna í Kaupmannahöfn, byggingasögulegra rannsókna á íbúðinni sjálfri auk sagn- og safnfræðilegra rannsókna á heimilislífi um miðbik 19. aldar í Kaupmannahöfn. Á sýningunni er sjónum beint að heimili hjónanna sem miðstöðvar fyrir Íslendinga og þætti Jóns Sigurðssonar í sjálfstæðisbaráttunni. Þjóðminjasafn Íslands annast sýningarstjórn fyrir hönd Alþingis.

Sýningarhöfundur: Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur.