Fréttir

Endurmörkun Þjóðminjasafns Íslands tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2019

15.10.2019

Tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands hafa verið birtar. Eitt af tilnefndum verkum er hönnun og endurmörkun Þjóðminjasafns Íslands sem hlaut aðalverðlaun FÍT 2019. Mörkunin var unnin af auglýsingastofunni Jónsson & Le'macks (Anton.JL).

„Hönnun og endurmörkun Þjóðminjasafns Íslands er einföld og látlaus en um leið glæsileg lausn á heildarásýnd stofnunar sem snertir alla landsmenn. Hönnun nýs einkennis safnsins endurvekur áhuga gesta á spennandi og nútímalegu safni og minnir okkur á þær gersemar sem safnkosturinn hefur að geyma. Í hönnuninni er unnið með fjórar ólíkar leturgerðir sem er hægt að rekja allt aftur til 9. aldar og litir sóttir úr handverki þjóðarinnar. Einkennið er innblásið af sögu þjóðarinnar og hlutum úr safnkosti því ásamt letri og grafískum lausnum eru ljósmyndir af gullmolum úr vörslu safnsins sýndar og til verður forvitnilegur heimur sem er freistandi að skoða nánar.“ Hönnunarverðlaun Íslands 2019 og málþing þeim tengt fer fram þann 14. nóvember næstkomandi. http://verdlaun.honnunarmidstod.is/

Markmið endurmörkunarinnar var að skapa heildstæðari, nútímalegri og meira áberandi einkenni fyrir Þjóðminjasafn Íslands. Ný ásýnd markast af sterkum litum, með skýra tilvísun í þjóðminjar og menningararf. 

Hin nýja mörkun felur í sér nýtt fyrirsagnaletur sem er samansett úr fjórum leturgerðum sem hafa verið notaðar á Íslandi í gegnum aldirnar: Íslenskar fúþark rúnir voru í almennri notkun í útskurði hér á landi frá landnámi og út 19. öld.

Fraktúrletur eða gotneskt letur vísar í leturgerðina í miðaldahandritum og í prentverki fram að 20. öld. Höfðaletur er séríslensk leturgerð sem notuð var í útskurði á ýmsum skrautmunum frá 16. öld. Greta Sans letrið sem tekið verður upp hjá safninu almennt flokkast undir steinskrift og vísar til nútímans.