Glæsilegur faldbúningur sýndur í Þjóðminjasafni Íslands
Einn glæsilegasti faldbúningur sem varðveist hefur verður sýndur í Þjóðminjasafni Íslands um mitt ár 2026. Líklegt þykir að Guðrún Skúladóttir (1740-1816) hafi saumað búninginn. Guðrún var mikils metin hannyrðakona og tók að sér saumaskap fyrir aðra auk þess að sinna handavinnukennslu.
Ekki er vitað svo óyggjandi sé hver hafi átt búninginn í upphafi, en mögulega er hér um að ræða brúðarbúning Þórunnar Ólafsdóttur sem giftist Hannesi Finnssyni biskupi árið 1780. Hempuskildir og koffur sem fylgja búningnum hafa verið eign móður Þórunnar, Sigríðar Magnúsdóttur, og bera upphafsstafi hennar SMD.
Faldbúningurinn á sér ærið merkilega sögu. William Jackson Hooker grasafræðingur keypti búninginn hér á landi árið 1809. Hooker tók sér far með skipi til Bretlands sama ár, með búninginn í farteskinu. Ekki vildi betur til en svo að skipið varð eldi að bráð úti fyrir Reykjanesi. Farþegar björguðust um borð í skipið Orion, hvar enginn annar en Jörundur hundadagakonungur var skipstjóri.
Búningurinn var talinn heyra sögunni til - en svo var aldeilis ekki. Þegar Elsa E. Guðjónsson (1924-2010), textílfræðingur á Þjóðminjasafninu til áratuga, settist árið 1963 við grúsk í Victoríu- og Albertsafninu í Lundúnum, rak hún augun í lýsingu á búningi sem hún kannaðist við. Búningnum hafði verið bjargað við skipskaðann árið 1809 og seldur til safnsins eftir daga grasafræðingsins. Búningurinn hefur varðveist í heilu lagi ásamt fylgihlutum en honum fylgir mikið og vandað silfur, sem og hempa.
Elsa ritaði ítarlega lýsingu á búningum og sögu hans í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1984 og geta áhugasamir nálgast greinina á tímarit.is og skoðað myndir með því að smella hér.
Í búningnum felast einstök menningarverðmæti. Hann varpar ljósi á listhandverk, stöðu kvenna, stéttaskiptingu og sögu þess klæðnaðar sem við nú köllum þjóðbúninga. Búningurinn dregur nafn sitt af höfuðbúnaðinum, faldinum, og er einn nokkurra búninga sem teljast til þjóðbúninga kvenna. Þegar búningurinn kemur til landsins gefst tækifæri til að rannsaka þennan merkisgrip úr frá sjónarhorni menningar- og búningasögu sem og sögu þeirra sem að gerð hans komu og nutu hans og báru.
Hér má nálgast frétt RÚV um komu búningsins til Íslands og hér umfjöllun sama miðils frá árinu 2023.