Fréttir

Fyrirlestur: Frelsa oss frá víkingum og konungum

Hádegisfyrirlestur Þjóðminjasafns Íslands

5.4.2018

Á síðustu tveimur öldum hefur sú venja breiðst út um heiminn að kalla Norðurlandabúa á miðöldum víkinga. Í því samhengi hafa landnámsmenn Íslands verið kallaðir víkingar.

Árni Björnsson, þjóðháttarfræðingur ætlar í erindi sínu að sýna fram á að þessar staðhæfingar eigi sér ekki stoð í miðaldaheimildum. Í öðru lagi hyggst hann afhjúpa þann þráláta misskilning að landnámsmenn hafi að stórum hluta verið af konungum komnir, enda væri slíkt ætterni síst til þess fallið að hreykja sér af. Konungsleysið hafi miklu fremur stuðlað að andlegri grósku á miðöldum.

Árni Björnsson fæddist í Dölum vestur árið 1932. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953. Kandídat í íslenskum fræðum frá HÍ 1961. Doktor í menningarsögu frá HÍ 1995. Sendikennari við þýska háskóla 1961-65. Vann á Árnastofnun og kenndi við MR 1965-68. Forstöðumaður þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns 1969-1994. Ritstjóri við Þjóðminjasafnið 1995-2000. Hefur samið mörg rit um íslenska menningarsögu, einkum hátíðisdaga ársins og í mannlífinu, en annars komið víða við.
Fyrirlesturinn er sjötti í röð hádegisfyrirlestra Þjóðminjasafnsins vor 2018. Verið öll velkomin.

https://www.youtube.com/watch?v=AzMwuTiO8Xs