Fréttir

Kistur biskupa opnaðar

2.7.2021

Meira en 250 ára gömul bein, hár og aðrar jarðneskar leifar Guðríðar Gísladóttur biskupsfrúar voru tekin upp úr lítilli kistu í Þjóðminjasafninu í gær, fimmtudaginn 1. júlí.

Árin 1954 til 58 fór fram mikill fornleifauppgröftur í Skálholti og voru meðal annars grafnar upp líkkistur biskupa, biskupsfrúa og barnabarna. Sá elsti lést 1697. Beinin voru flutt til Reykjavíkur og rannsökuð. Litlar trékistur voru þá smíðaðar undir jarðnesku leifarnar og 1963 voru þær svo fluttar í Skálholt í grafhvelfingu undir nýrri Skálholtskirkju og fyrir settur stór legsteinn. Kisturnar voru svo fluttar í Þjóðminjasafn Íslands þann 8. júní síðastliðinn. 

Kistur fimm biskupa, biskupsfrúa og nokkurra afkomenda bíða þess nú að vera rannsökuð með nútíma aðferðum sem geta m.a. varpað ljósi á heilsu og þjóðfélagsbreytingar þeirra tíma. Joe Wallace Walser mannabeinafræðingur og sérfræðingur í Þjóðminjasafninu fer fyrir rannsókninni. 

Hér má sjá frétt á RÚV þegar kista Guðríðar var opnuð.