Fréttir

Þrír ljósmyndarar valdir til að fanga áhrif kórónafaraldursins

Lífið á dögum kórónuveirunnar

5.5.2020

Þjóðminjasafn Íslands hefur sett af stað tvö verkefni til að safna heimildum um áhrif kórónafaraldursins á íslenskt samfélag. Spurningaskrá frá þjóðháttasafni var send í loftið í mars sem hundruðir manna hafa nú þegar svarað og í aprílok var farið af stað með samtímaljósmyndaverkefni. Bæði verkefnin bera yfirskriftina Lífið á dögum kórónaveirunnar.

Þjóðminjasafnið auglýsti eftir ljósmyndurum sem hefðu áhuga á að taka þátt í verkefninu sem verður myndræn skráning á áhrifum faraldursins. Rúmlega þrjátíu umsóknir bárust og voru þrír ljósmyndarar valdir úr þeim hópi til að vinna að því að fanga í ljósmynd það einstaka andrúm sem ríkir á Íslandi á tímum faraldurs. Það eru Heiða Helgadóttir, Pétur Thomsen og Ragnar Axelsson sem munu taka þetta verkefni að sér. Þær samfélagslegu raskanir sem orðið hafa í upphafi þessa árs eru einstakar og verða hluti af sögu þjóðarinnar um ókomna tíð og mikilsvert að skrá það og varðveita til framtíðar.