Fréttir

Menningarnótt 2017

Dagskrá

10.8.2017

Á Menningarnótt verður fjölbreytt dagskrá í Þjóðminjasafni Íslands. Safnið er opið frá 10 - 22 og aðgangur ókeypis. 

Dagskrá:

11:00  Leiðsögn á ensku. 

Leiðsögn á ensku um grunnsýningu safnsins „Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár“

14:00  Leiðsögn sérfræðings Ljósmyndasafns Íslands - Fuglarnir, fjörðurinn og landið.

Kristín Halla Baldvinsdóttir, sýningarhöfundur, verður með leiðsögn um sýninguna Fuglarnir, fjörðurinn og landið. Ljósmyndir Björns Björnssonar. 

14:00 – 16:00  Teygjutvist og andlitsmálun.

Rifjum upp gamla takta og kennum krökkunum sígilda leiki. Teygjutvist var vinsæll leikur meðal krakka fyrir um fjörutíu árum. Teygjutvist er snarpur leikur sem eykur úthald og kemur öllum í gott skap. Tveir standa hvor á móti öðrum með bil á milli fóta í mjaðmabreidd. Teygjan er til að byrja með strekkt á milli þeirra um öklana. Þriðji leikmaðurinn tekur sér stöðu við teygjuna og aðrir sem eru með í leiknum fara í röð fyrir aftan. Leikurinn gengur út á það að hver og einn geti hoppað ákveðin spor við teygjuna og á henni, fyrst í öklahæð, svo er teygjan færð við hné og svo framvegis, upp eftir líkamanum. Ef sá sem hoppar ruglast í sporunum eða tekst ekki að framkvæma fyrir fram ákveðin spor, tekur hann við því að standa með teygjuna um fæturna. Sá sem getur hoppað í hæstu stöðunni vinnur. Andlitsmálun með fuglaþema býðst á staðnum.

19:30 – 19:45  Örleiðsögn sérfræðings Þjóðminjasafns Íslands um sýninguna Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi. 

Í nóvember 2016 var opnuð sýning í Bogasal Þjóðminjasafnsins sem nefnist Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi. Sýningin byggir á rannsóknum mannfræðinganna Kristínar Loftsdóttur og Unnar Dísar Skaptadóttur og  nemenda þeirra við Háskóla Íslands. Á sýningunni er dregið fram að saga og samtími Íslands hefur einkennst af þverþjóðlegum tengslum rétt eins og annarra landa í heiminum. Ísland hefur þannig verið vettvangur hreyfanleika fólks og hugmynda í gegnum aldir.

 20:00 – 21.30  Heimurinn í Íslandi – Dansveisla frá Balkanskaganum.

Í tengslum við sýninguna Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi í Bogasal Þjóðminjasafnsins er boðið til dansveislu í anda Balkanlandanna á Menningarnótt. Danskennarinn Veska Jónsdóttir frá Búlgaríu stjórnar dansinum, kennir sporin og heldur uppi fjörinu.

Á Balkanskaganum er ríkuleg danshefð. Þar dansar fólk á öllum aldri saman við ýmis tækifæri. Skrefin í Balkandönsum eru ýmist hæg eða hröð, einföld eða flókin og taktur tónlistarinnar er margslunginn og óvenjulegur. Balkandansar eru góð hreyfing sem eykur úthald, samhæfingu og jafnvægi. Komdu og dansaðu nokkur spor við líflega og fjöruga tónlist.

Allan daginn:

Hversu þverþjóðleg ert þú? Hversu þverþjóðlegur ert þú?

Leikur sem mælir þverþjóðleika í tengslum við sýninguna Ísland í heiminum, heimurinn í Íslandi. Veldu úr nokkrum staðhæfingum þá sem best á við um þig. Með því að leggja saman stigin þín færðu svarið við spurningunni Hversu þverþjóðleg/-ur ert þú? Gestir eru hvattir til að deila útkomu sinni á samfélagsmiðlum. #islandiheiminum #thjodminjasafnid #menningarnótt #þverþjóðleiki

Fuglaratleikur - Fuglar inni og úti

Ratleikur á Þjóðminjasafni Íslands og Safnahúsinu við Hverfisgötu með viðkomu við Tjörnina. Í þessum leik eru skoðaðir fuglar inni og úti; uppstoppaðir fuglar, fuglabeinagrind, lifandi fuglar og útskornir fuglar. Ratleikinn þarf ekki að leysa í neinni ákveðinni röð. Ratleikinn má nálgast í móttöku Safnahússins við Hverfisgötu og Þjóðminjasafnsins á Suðurgötu.

Á Íslandi eru margar tegundir fugla. Sumir fuglar fljúga á milli landa á hverju ári til að leita sér að æti og til að verpa. Aðrir eru staðfuglar og halda sig á afmörkuðu svæði á landinu. Enn aðrir koma til lands til að verpa og halda sig á sjó megnið af ævinni.

Fuglafit

Fuglafit kallast það þegar einn eða tveir leika sér með bandspotta sem er hnýttur saman og búa til alls kyns mynstur með spottanum. Á Menningarnótt býðst gestum Þjóðminjasafns Íslands að æfa fingur sína og fimi með því að gera Fuglafit. Fuglafit er sígildur leikur sem sýnir fram á möguleika þess sem má  gera með einföldum bandspotta. Bönd og leiðbeiningar verða á staðnum.

Hvaða litur fer fuglinum best? 

Ímyndaðu þér hvernig það var áður en litmyndir komu til sögunnar. Þá fengu ljósmyndarar frelsi til að ákveða liti í myndum sínum með handlitun. Samt reyndu þeir oftast að líkja eftir náttúrulegum litum fuglanna.

Litaðu fuglamyndir líkt og ljósmyndari. Björn Björnsson hafði mikinn áhuga á fuglaljósmyndun. Hann tók margar svarhvítar myndir af fuglum og seinna í lit. Stundum handlitaði hann svarthvítu myndirnar því þá var ekki hægt að gera litljósmyndir á pappír öðruvísi. Nú gefst þér tækifæri til að lita fuglamynd líka. Fuglamyndasmiðja er í fræðsluhorni Myndasals.