Fréttir

Minningarorð. Áskell Jónasson bóndi á Þverá í Laxárdal

22.1.2022

Áskell Jónasson bóndi á Þverá í Laxárdal er borinn til grafar frá Þverárkirkju í dag. Áskell var kær og mikilsmetinn samstarfsmaður og velgjörðarmaður Þjóðminjasafns Íslands. Sú samvinna og vinátta hefur lagt grunn að traustri varðveislu minjanna að Þverá, eins merkasta minjastaðar landsins. 

Þverárbærinn er með stærri torfbæjum þar sem húsaskipanin endurspeglar hugvit og vandað handverk. Þar eru auk baðstofu og eldhúss mörg hús sambyggð, göng og rangalar þar sem bæjarlækurinn er leiddur í gegnum bæinn og inn í lækjarhús þar sem hægt var að sækja neysluvatn og kæla matvöru. Í kringum bæinn má ennfremur sjá útihús af ýmsum gerðum sem ásamt kirkju mynda órofa heild menningarlandslagsins sem fyrir tilstilli Áskels tilheyrir nú þjóðinni.Samstarf Áskels Jónasson og þjóðminjavörslunnar á sér því langa sögu. Kristján Eldjárn þáverandi þjóðminjavörður kom að Þverá árið 1967 og rannsakaði bæinn. Hann fékk bræðurna Áskel og Jón til að halda verndarhendi yfir bænum þar til unnt væri að hefja viðgerð hans. Árið 1968 var bærinn afhentur Þjóðminjasafns Íslands til varðveislu í húsasafni þess og hófust þegar viðgerðir í samvinnu við þá bræður. Allar götur síðan hefur varðveisla minjanna einkennst af gefandi og traustri samvinna við Áskel. Áskell var vandvirkur handverksmaður sem vann störf sín að stakri alúð og þekkingu hvort heldur við hleðslu, trésmíði eða járnsmíði. Honum var afar annt um góð vinnubrögð og nákvæman frágang. Sést hið vandaða handverk hans víða í bænum. Hann þekkti sögu bæjarins og fólksins sem þar bjó, en hugsaði ekki síður fram á veginn. Honum var umhugað um framtíð menningarminjanna og trygga varðveislu þeirra.Árið 2011 var formlega gengið frá eignarhaldi Þjóðminjasafns Íslands á Þverárbænum, útihúsum og menningarlandslaginu með gjafasamningi undirrituðum af Áskatli. Þá færði Áskell Þjóðminjasafni Íslands Þverárkirkju að gjöf árið 2019, en þá var nýlokið vandaðri viðgerð á kirkjunni undir hans handleiðslu. Þessi höfðinglega gjöf Áskels er til marks um stórhug og skýra framtíðarsýn hans um verndun þjóðminjanna að Þverá sem honum var einkar annt um.Áskell var alla tíð vakinn og sofinn yfir ástandi torfhúsanna og kirkjunnar. Hann leiðbeindi um handverkið og fræddi um heimilishald og búskap fyrri tíma þannig að sanngildis yrði gætt í viðgerðum. Hann brýndi til góðra verka og verða hans ráð áfram leiðarljós í verndun þjóðminjanna og miðlun þar um til framtíðar. 

Við kveðjum góðan vin og samstarfsmann í einlægri þökk fyrir ómetanlegt framlag í þágu þjóðarinnar. Þverá í Laxárdal er arfleifð hans og gjöf til komandi kynslóða. Heiðruð sé minning Áskel Jónassonar.