Fréttir

Ný ásýnd Þjóðminjasafns og ársaðgangur að gjöf til gesta á 100 ára afmæli fullveldis Íslands

20.11.2018

Það tekur tíma að fara í ferðalag sem nær yfir 1200 ár. Nú er miðinn þinn í Þjóðminjasafnið og Safnahúsið líka árskort. Hann gildir í heilt ár svo þú hefur nægan tíma og ert velkomin/n eins oft og þú vilt. 

Ný ásýnd safnsins markast af sterkum litum, með skýra tilvísun í þjóðminjar og menningararf. Hin nýja mörkun felur í sér fyrirsagnaletur sem er samansett úr fjórum leturgerðum sem hafa verið notaðar á Íslandi í gegnum aldirnar: Íslenskar fúþark rúnir voru í almennri notkun í útskurði hér á landi frá landnámi og út 19. öld. Fraktúrletur eða gotneskt letur vísar í leturgerðina í miðaldahandritum og í prentverki fram að 20. öld. Höfðaletur er séríslensk leturgerð sem notuð var í útskurði á ýmsum skrautmunum frá 16. öld. Greta Sans, sem verður almennt letur safnsins flokkast undir steinskrift og vísar til nútímans.Aðgangseyrir að safninu fyrir fullorðna er kr. 2000. Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis mun aðgöngumiðinn einnig gilda sem árskort frá 1. desember. Innifalinn er aðgangur að öllum sýningum og viðburðum á vegum safnsins í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu og Safnahúsinu á Hverfisgötu frá fullveldisdeginum 1. desember 2018 til 30. nóvember 2019. Frír aðgangur er fyrir börn að 18 ára aldri.

Aðgöngumiðinn fæst í Þjóðminjasafni Íslands frá 1. desember 2018.

#fullveldi1918 #fullveldisdagurinn