Fréttir
  • BB-fuglamyndir_1959

Opnun tveggja sýninga 3. júní í Þjóðminjasafni Íslands

1.6.2017

Laugardaginn 3. júní kl. 14 verða opnaðar tvær ljósmyndasýningar í Þjóðminjasafni Íslands: Fuglarnir, fjörðurinn og landið. Ljósmyndir Björns Björnssonar og Hugsað heim – Inga Lísa Middleton. Sýningarnar standa yfir til 17. september 2017.

Fuglarnir, fjörðurinn og landið. Ljósmyndir Björns Björnssonar

BB1-24665

Björn Björnsson (1889 – 1977) var áhugaljósmyndari sem sérhæfði sig að mestu leyti í fuglaljósmyndun. Hann vann að ljósmyndun á Austfjörðum meðfram verslunarstörfum, lengst af á Norðfirði. Á síðari árum sérhæfði Björn sig í náttúrulífsljósmyndun og ferðaðist um landið í þeim tilgangi. Myndir hans af fuglum birtust víða, meðal annars í Náttúrufræðingnum og í British Birds.  

Björn fæddist að Þverdal, Saurbæjarhreppi í Dalasýslu árið 1889 en fram undir tvítugt var hann búsettur víða á Vesturlandi og svo í Reykjavík. Árið 1911 réði hann sig til vinnu á Seyðisfirði og í kjölfarið urðu Austfirðir heimkynni hans, lengst af Norðfjörður. Árið 1945 sneri Björn baki við verslunarrekstri, fluttist til Reykjavíkur, þá 56 ára. Nú gat hann einbeitt sér að hugðarefnum sínum, ferðalögum um landið og ljósmyndun.  

BB-fuglamyndir_1959

Fuglamyndir Björns hafa skapað honum sérstöðu innan íslenskrar ljósmyndunar. Björn fór í margar fuglarannsóknarferðir, ýmist einn eða í för með fuglafræðingum. Áhugamál Björns tók stakkaskiptum árið 1939 þegar hann eignaðist myndavél sem hentaði sérstaklega vel til fuglaljósmyndunar. Björn var þekktur fyrir að spara ekkert til þess að sinna þessari ástríðu sinni, hvort sem um var að ræða ferðamáta, ljósmyndunarbúnað eða tíma.

Ljósmynda- og filmusafn Björns telur tugi þúsunda mynda, auk annars efnis tengdu ljósmyndun og er varðveitt hjá þremur stofnunum, í Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni, í Mynda- og skjalasafni  Norðfjarðar og hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Myndir Björns Björnssonar verða sýndar í Myndasal Þjóðminjasafnsins, Suðurgötu 41, 101 Reykjavík. Samhliða sýningunni gefur Þjóðminjasafn Íslands út samnefnt rit um ljósmyndir Björns Björnssonar. 

 

Hugsað heim – Inga Lísa Middleton

Titill sýningarinnar Hugsað heim vísar bæði til viðfangsefnis myndanna og þess draumkennda blæs sem einkennir þær. Meginstef sýningarinnar er heimþrá en myndirnar sýna tilfinningatengsl höfundar við heimalandið Ísland og eru fullar af ljúfsárum söknuði. Myndefnið er bæði áþreifanlegt og táknrænt í senn: Kröftugir fossar sem knýja vatnsaflsvirkjanir, lóan sem boðar komu vorsins eftir langan vetur og hvönn sem löngum hefur verið notuð sem lækningajurt. Í myndunum kallast hið hversdagslega á við ljóðræna sýn á landið.

Inga Lísa vinnur myndirnar sínar með aðferð sem nefnist á ensku Cyanotype. Aðferðin var þróuð á 19. öld og var lengi vel notuð til að fjölfalda prentefni. Heitið vísar til bláa litarins, cyan sem er einkennandi fyrir myndirnar. 

Inga Lísa Middleton er ljósmyndari að mennt, búsett í Bretlandi.Inga Lísa Middleton er með BA gráðu í ljósmyndun frá University for the Creative Arts í Surrey og MA gráðu í ljósmyndun frá The Royal College of Art í London. Hún hefur tekið ljósmyndir fyrir auglýsingar og tímarit, myndskreytt bækur, unnið sem ljósmyndari í bíómyndum og tekið portrett ljósmyndir. Inga Lísa hefur einnig skrifað, leikstýrt og framleitt sjónvarpsþætti, stuttmyndir, auglýsingar og myndbönd.

Inga Lisa

Inga Lísa hefur sýnt í Norræna húsinu, sendiráði Íslands í London og fram í júlí á þessu ári stendur yfir sýning á verkum hennar í Sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Inga Lísa hefur einnig tekið þátt í samsýningum í The Mall Galleries og í  Southbank Centre í London, Englandi, Gallery North og Herstmonceux Castle í East Sussex, Englandi, auk nokkurra alþjóðlegra samsýninga.

Myndir Ingu Lísu Middleton verða sýndar á Vegg í Ljósmyndasal Þjóðminjasafns Íslands.