Fréttir

Regnbogaþráður

16.11.2018

Regnbogaþráður, hinsegin vegvísir um grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands, Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár, verður opnaður á Þjóðminjasafninu laugardaginn 17. nóvember kl. 14:00. Að verkefninu standa Þjóðminjasafn Íslands og Samtökin ‘78 en tilefnið er 40 ára afmæli Samtakanna.

Um er að ræða bækling og hljóðleiðsögn á íslensku og ensku sem leiðir gesti í gegnum sýninguna og veltir upp ýmsum hinsegin hliðum á Íslandssögunni og íslensku þjóðinni. Markmiðið með Regnbogaþræðinum er að miðla upplýsingum um hinsegin líf og tilveru, sýna hvernig hugmyndir um kyn og kynhneigð taka á sig ýmsar myndir á ólíkum tímum og ekki síst að spyrja spurninga, skoða hið ósagða og hvetja gesti til gagnrýninnar hugsunar.

Saga hinsegin fólks er ekki oft sögð á opinberum söfnum og sýningum. Með þessu framtaki vilja Þjóðminjasafnið og Samtökin ‘78 benda á mikilvægi þess að segja sögu minnihlutahópa á söfnum og skoða hefðbundna Íslandssögu út frá gagnrýnum sjónarhóli og spyrja spurninga um hverra saga sé sögð.