Fréttir

Samferða í söfnin

14.9.2020

Í sumar buðust gestum margs konar leiðir til að upplifa sýningar safnsins og sögu þjóðarinnar. Börn og fjölskyldur voru sérstaklega boðin velkomin á safnið með fjölbreyttri dagskrá undir handleiðslu safnkennara. 

Dagskráin fór fram á þriðjudögum, miðvikudögum og föstudögum. Þriðjudagar í Safnahúsinu voru undir þemanu Ímyndun eða veruleiki? Þjóðsögur, kynjaskepnur, goðsögur. Á sýningunni í Safnahúsinu er að finna ótrúlegan fjársjóð merkilegra teikninga, listaverka, náttúrugripa, handrita, forngripa, ljósmynda og korta. Saman þræddu safnkennarar og gestir hluta sýningarinnar og kynntust sögunum á bak við fjársjóðina.

Á miðvikudögum kallaðist dagskráliðurinn Morgunstund gefur gull í mund og fól í sér að eiga rólega morgunstund, kynnast nánar ólíkum tímahólfum í grunnsýningu Þjóðminjasafnsins, læra á sýninguna og þá leyndardóma sem þar er að finna. Á föstudögum fór dagskráin fram í Stofu. Ýmist voru dregnir fram safnkassar eða haldnar smiðjur. Safnkassarnir innihalda mismunandi þematengda hluti frá fyrri tíð. Kíkt var í kassanna og innihald þeirra tengt við grunnsýningu Þjóðminjasafnsins og þær sérsýningar sem standa yfir.

Til að höfða til allra aldurshópa samfélagsins var boðið upp á nýja gerð leiðsagna í Þjóðminjasafninu í sumar. Fjórar nýjar örleiðsagnir litu dagsins ljós. Þær tóku rúmlega 20 mínútur og var grunnsýning Þjóð verður til – menning og samfélag í 1200 ár, skoðuð út frá mismunandi þemum. Þau voru Lög og regla – glæpur og refsing, Trúin í aldanna rás, Hamfarir og drepsóttir og svo vinsælasta leiðsögnin Draugar, huldufólk, hjátrú og galdrar. Þessar leiðsagnir voru vel sóttar og gaman að bjóða gestum upp á þessa nýjung.