Fréttir

Sumarsmiðjur í Þjóðminjasafni 2021

2.9.2021

Yfir sumartímann var gestum safnsins boðin dægradvöl í föndursmiðjum á vegum safnfræðslunnar. Á hverjum miðvikudegi var fjölskylduleiðsögn og henni fylgdi smiðja sem fékk að standa fyrir gesti og gangandi í viku. Við þökkum áhugasömum krökkum fyrir komuna og birtum hér nokkrar myndir frá smiðjunum. 

Boðið var upp á smiðju þar sem gestum gafst færi á að búa til sína eigin bandrún og úr henni stimpil. Hér hafa safnast saman ólíkar útgáfur handgerðra stimpla. Á YouTube-síðu safnsins eru leiðbeiningar til að gera eigin stimpil: Bandrúnir og stimplar - YouTube 

Í eldgosasmiðjunni fékk sköpunarkrafturinn heldur betur lausan tauminn enda geta eldfjöll hagað sér alls konar eins og við íbúar Íslands höfum fengið að fylgjast með undanfarna mánuði. Á myndinni sjást nokkur sköpunarverkanna úr smiðjunni. Leiðbeiningarnar voru einfaldar; dökkur pappír er fyrir eldfjallið sjálft og björtu litirnir fyrir glóandi hraunið.

Nýjasta æðið eru svokölluð „pop-it“-leikföng. Þegar þrýst er á hnappa leikfangsins þá heyrast smellir. Á Þjóðminjasafninu fengu börn að heyra um matarhefð Íslendinga og útbúa síðan sitt eigið asklok með smellu. Þar með sameinaðist hið gamla og hið nýja. Leiðbeiningar má finna í myndbandi safnsins á YouTube.