Sýningaopnun í Myndasal 27. mars
Þjóðminjasafn Íslands býður til opnunar á tveimur nýjum ljósmyndasýningum laugardaginn 27. mars. Spessi 1990 - 2020 og Bakgarðar, ljósmyndir eftir Kristján Magnússon. Sýningarnar verða opnar gestum frá kl. 10 til 17. Við biðjum gesti að virða þær sóttvarnarreglur sem eru í gildi. Grímuskylda og tveggja metra reglan gildir á safninu. Hámarksfjöldi einstaklinga í hverju rými eru tíu manns. Fjöldatakmörkun og nálægðarmörk taka ekki til barna sem fædd eru 2015 eða síðar. Verið öll velkomin.
Spessi 1990 - 2020
Samtímaljósmyndarinn Spessi - Sigurþór Hallbjörnsson - hefur skapað sér einstakan stíl á sviði fagurfræðilegrar ljósmyndunar. Í verkum hans birtist iðulega blákaldur veruleikinn, ekkert fegrað og ekkert dregið undan sama hvort myndefnið er manneskjan eða umhverfið. Kimar samfélagsins í samtvinningi við menningarlífið eru áberandi í verkum hans. Val hans og efnistök eru gjarnan ögrandi en samtímis gædd mannúð og kímni.
Spessi er fæddur árið 1956 á Ísafirði. Þangað hefur hann sótt innblástur í mörg verk eins og sést í myndaröðunum Hetjur og Úrtak. Nýjasta verkefni hans C19 var einnig tekið í heimabæ hans. Spessi nam ljósmyndun við AKI – Akademie voor Beeldende Kunst í Hollandi og útskrifaðist þaðan árið 1994. Ljósmyndir og vídeóverk hans hafa birst á fjölmörgum einkasýningum og samsýningum hér á landi og erlendis m.a. í Hollandi, Svíþjóð, Finnlandi, Lettlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi.
Ferill Spessa spannar meira en 30 ár og á yfirlitsýningu hans má sjá þær ótal sögur sem birtast í verkum hans. Stoltar hvunndagshetjur, einmana bensíndælur, yfirgefin rými, beygluð byltingarvopn, byssueigendur, blokkaríbúar og listamenn, sumir vandræðalegir aðrir sjálfsöruggir.
Verk Spessa eru spegill á íslenskt samfélag og fela í sér mikilvæga samfélagsrýni.
Bakgarðar
Bakgarðar, skúrar, þvottasnúrur og einstaka köttur. Ljósmyndarinn Kristján Magnússon skoðar með linsunni þröngt afmarkað svæði í borgarumhverfi; eingöngu staði bakatil í íbúðarbyggð í eldri hluta Reykjavíkur. Hann fangar í mynd nær mannlaus rými sem virðast þaulskipulögð þrátt fyrir óreiðukennt umhverfi. Ljósmyndaröðin ber sterk einkenni stílbragðs Kristjáns sem var þaulreyndur auglýsingaljósmyndari.
Kristján Magnússon (1931-2003) lærði ljósmyndun hjá Pétri Thomsen um 1960. Á sama tíma myndaði hann fyrir tímaritið Vikuna og dagblaðið Tímann. Kristján vann sjálfstætt frá árinu 1967, opnaði ljósmyndastofu og myndaði alla tíð mikið fyrir auglýsingastofur. Ingimundur, tvíburabróðir Kristjáns, kom seinna inn í reksturinn og þeir unnu saman á árunum 1978-1998.
Ljósmyndasafn Kristjáns barst Ljósmyndasafni Íslands í Þjóðminjasafni árið 2004. Þar á meðal var myndaröðin Bakgarðar. Myndirnar hafði hann sjálfur valið, unnið og gert tilbúnar til sýningar en þær birtast fyrst sjónum almenning núna.
Dagskrá
6. apríl kl. 12 Fyrirlestur: Út fyrir þægindarammann - ljósmyndun Spessa. Linda Ásdísardóttir
11. apríl kl. 14 Listamannaspjall og leiðsögn: Spessi
4. maí kl. 12 Fyrirlestur: Hið manngerða landslag í ljósmyndum Spessa. Birkir Karlsson
29. ágúst – sýningarlok