Fréttir

Þjóðminjasafn Íslands hlýtur íslensku safnaverðlaunin árið 2020

19.5.2020

Þjóðminjasafn Íslands hlýtur íslensku safnaverðlaunin árið 2020 fyrir Varðveislu- og rannsóknamiðstöðvar safnsins að Tjarnarvöllum í Hafnarfirði og Vesturvör í Kópavogi og útgáfu vefritsins Handbók um varðveislu safnkosts.

Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður tók við verðlaununum frá hr. Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu í gær (18.05.2020).

Verðlaunin eru veitt annað hvert ár fyrir framúrskarandi starfsemi á sviði safna. Að verðlaunaveitingunni standa Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS)

Í umsögn dómnefndar segir að: „varðveislu- og rannsóknarsetur Þjóðminjasafns Íslands í Hafnarfirði og Kópavogi ásamt Handbók um varðveislu safnkosts sé mikilvægt framlag til minjaverndar á landsvísu. Samstarf og miðlun þekkingar er þýðingarmikið og sú sérhæfða aðstaða sem sköpuð hefur verið fyrir varðveislu ómetanlegra minja er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.“ Í Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafns Íslands eru varðveittar þjóðminjar við kjöraðstæður fyrir fjölbreyttan safnkost og fjölþætta starfsemi á sviði þjóðminjavörslu, fjölbreyttur safnkostur muna og jarðfundinna gripa, á áttundu milljón ljósmynda og efniviður til varðveislu yfir 60 hús Þjóðminjasafns Íslands um allt land.

Með tilkomu miðstöðvanna tveggja varð gjörbreyting á aðstöðu til varðveislu og aðgengi að safnkosti Þjóðminjasafns Íslands í þágu rannsókna, menntunar og miðlunar. Skráning og vistun er grundvöllur stefnumörkunar um söfnun til framtíðar og forsenda alls safnastarfs.

 

 

 

 

 

Öll tilnefnd verkefni eru til marks um mikilvægi varðveislu, rannsókna um vandaða miðlun og samtal við samfélagið og fjöldi tillagna sem bárust dómnefnd eru til marks um afar gróskumikið safnastarf um allt land.

 

 

Aðrar tilnefningar til Safnaverðlaunanna 2020:

Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi - Minjasafn Austurlands á Egilsstöðum, Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði og Sjóminjasafn Austurlands á Eskifirði ásamt Gunnarsstofnun, menningar- og fræðasetri á Skriðuklaustri í Fljótsdal.

 

Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár – ný grunnsýning Sjóminjasafns Bogarsögusafns Reykjavíkur og aðkoma tveggja hollvinasamtaka, Óðins og Magna.

 

2019 – ár listar í almannarými hjá Listasafni Reykjavíkur

 

Vatnið í náttúru Íslands – ný grunnsýning Náttúruminjasafns Íslands

 

Þjóðminjasafn Íslands þakkar Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) fyrir viðurkenninguna sem er safninu mikilvæg hvatning í faglegu safnastarfi þar sem markmiðið er að leggja grundvöll að til framtíðar með nýjum viðmiðum. Þjóðminjasafnið hefur notið þess heiðurs að hljóta tilnefningu undanfarin ár og ávallt litið á það sem mikilvæga brýningu og hvatningu til góðra verka.

Við óskum öllu starfsfólki safnsins innilega til hamingju með viðurkenninguna.