Fréttir

Umfjöllun um endurmörkun Þjóðminjasafns Íslands

24.1.2019

Umsögn um nýja ásýnd Þjóðminjasafns Íslands birtist í Brand New by UCllc, einum af stærstu vefmiðlum sem sérhæfa sig í umfjöllun um mörkun. Í greininni segir að endurmörkunin sé mjög vel heppnuð og blási nýju lífi í safnið en haldi um leið tryggð við einkenni þess. Mörkunin var unnin af auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks.

Markmið endurmörkunarinnar var að skapa heildstæðari, nútímalegri og meira áberandi einkenni fyrir Þjóðminjasafn Íslands. Ný ásýnd markast af sterkum litum, með skýra tilvísun í þjóðminjar og menningararf. 


Hin nýja mörkun felur í sér nýtt fyrirsagnaletur sem er samansett úr fjórum leturgerðum sem hafa verið notaðar á Íslandi í gegnum aldirnar: Íslenskar fúþark rúnir voru í almennri notkun í útskurði hér á landi frá landnámi og út 19. öld.

Fraktúrletur eða gotneskt letur vísar í leturgerðina í miðaldahandritum og í prentverki fram að 20. öld. Höfðaletur er séríslensk leturgerð sem notuð var í útskurði á ýmsum skrautmunum frá 16. öld. Greta Sans letrið sem tekið verður upp hjá safninu almennt flokkast undir steinskrift og vísar til nútímans.