Abrahamshornið
JÚNÍ 2019
Þjms. 1987-79.
Gripur júnímánaðar í Þjóðminjasafni Íslands er prýðilegt, útskorið drykkjarhorn frá 16. öld. Það ber einkenni íslensku drykkjarhornanna frá síðmiðöldum. Útskornum myndum er skipað niður í fjögur aðgreind belti sem umlykja hornið. Á því efsta eru fjórir hringir og í einum þeirra sjást mannamyndir en í þremur eru myndir af kynjadýrum, eins og algeng eru í miðaldaútskurði í bein og tré. Þar fyrir neðan er belti með ólæsilegum höfðaletursstöfum.Kynjadýr koma einnig fyrir í næstneðsta belti hornsins en ólæsilegir höfðaleturstafir eru í næst efsta beltinu. Hið neðsta er óútskorið. Þótt hornið sé af útlendum nautgrip þá er höfðaletrið til marks um að út var það skorið á Íslandi þar sem sú leturtegund er alíslensk. Silfurbeitir á horninu eru síðari tíma viðbætur, líklega frá 19.öld.
Þetta horn er nefnt Abrahamshornið, því áður nefndar mannamyndir sýna Abraham og Melkísedek konung í Salem. Sambærilegar myndir koma fyrir á prenti frá 16. öld sem tímasetning hornsins byggist á. Saga hornsins fyrstu aldirnar er óþekkt. Bandarísk hjón í Rochester í Minnesota hrepptu það á uppboði þar árið 1985 og fyrir tilstuðlan Ellen Marie Magerøy, listfræðings, seldu þau það fljótlega norsku ríkisstjórninni. Það var vinabragð Norðmanna þegar Thorvald Stoltenberg menntamálaráðherra Noregs færði hornið íslensku þjóðinni að gjöf í opinberri heimsókn sinni til Íslands árið 1987.
Drykkjarhorn voru í eigu stórhöfðingja og biskupsstóla. Drukkið var af þeim í veislum eða við helgiathafnir. Alls er vitað um 38 varðveitt, útskorin horn frá því fyrir siðaskipti. Þau voru eftirsótt af erlendum ferðamönnum sem komu til Íslands á 19. öld. Það er ástæða þess að langflest þeirra höfnuðu í erlendum söfnum. Tíu eru nú varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands en á seinustu árum hafa velunnarar safnsins hlutast til um að tvö hafa endurheimst til landsins meðan önnur prýða erlend söfn, allt frá Þjóðlistasafninu (Hermitage) í Sankti Pétursborg í Rússlandi til Þjóðminjasafns Dana. Þar eru enn nokkur íslensk horn varðveitt, en árið 1930 afhentu Danir, samkvæmt samningi, fjölda íslenskra gripa til Þjóðminjasafns Íslands, þar á meðal fjögur drykkjarhorn. Eitt horna Þjóðminjasafns Dana er lykilgripur á grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands. Það er nefnt Kanahornið og var skorið af Brynjólfi Jónssyni bónda og lögréttumanni í Skarði á Landi (1550-eftir 1627). Hann skar og hornið sem varðveitt er í Hermitage í Sankti Pétursborg.
Í maímánuði var opnuð sýningin LUX í Slottsfjellsmuseet í Túnsbergi þar sem sýndir eru dýrgripir frá Noregi, Danmörku og Íslandi.
Það lá beint við að lána Abrahamshornið á þá sýningu þar sem varpað er ljósi á náin menningartengsl milli þessara þjóða í nútíð og fortíð. Sýningin stendur í Túnsbergi fram til ársins 2021.
Lilja Árnadóttir
Heimildir:
Ellen Marie Magerøy. 2000. Islandsk hornskurd Drikkehorn fra før brennivinstiden. Bibliotheca Arnamagnæana.
Lilja Árnadóttir. 2011: Guðvelkomnir góðir vinir. Útskorin íslenska drykkjarhorn. Ritstjóri Bryndís Sverrisdóttir. Þjóðminjasafn Íslands.