Altarisklæði frá Svalbarði
JÚLÍ 2021
Gripur júlímánaðar er altarisklæði úr kirkjunni á Svalbarði á Svalbarðsströnd sem var endurgerð sem Minjasafnskirkja og flutt til Akureyrar árið 1970.1 Klæðið, sem álitið er vera frá 15. öld, var sent Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn árið 1847 en kom síðan aftur til Íslands árið 1930 þegar Þjóðminjasafn Íslands fékk það að gjöf frá danska þjóðminjasafninu.
Í aðfangabók Þjóðminjasafnsins er það sagt vera 88 sm á hæð og 111 sm á breidd, en þess jafnframt getið að það „vanti af því beggja vegna á neðra helmingi þess.“2 Myndefnið eru atburðir tengdir fæðingu- og píslarsögu Krists úr sögu Jóhannesar guðspjallamanns eins og hún er skráð í Tveggja postula sögu Jóns og Jakobs. Þess má geta að Jóhannes var verndardýrlingur kirkjunnar á Svalbarði.
Reitirnir á klæðinu eru tólf talsins sem tengdir eru saman með smáum blómkringlum. Inni í hverjum reit er greint frá ákveðnum atburðum úr fæðingu- og píslarsögunni og gerir Gísli Gestsson, fyrrverandi safnvörður Þjóðminjasafnsins prýðilega grein fyrir þeim í ítarlegri grein sinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1963.3 Myndefni reitanna talið að ofan frá vinstri til hægri er sem hér segir:
1. Dæmisaga um hana.
2. Húðstrýking Jóhannesar.
3. Hárið klippt af postulanum til háðungar.
4. Postulinn situr í potti með vellandi viðsmjöri.
5. Jóhannes vekur Drúsíönu upp frá dauðum.
6. Postulinn og spellvirkinn.
7. Saga um tvo bræður og brotna gimsteina.
8. Saga um tvo öfundsjúka bræður.
9. Jóhannes tekur við eiturbikar frá Aristódímusi.
10. Aristódímus tekur við kápu postula.
11. Aristódímus lífgar tvo glæpamenn með kápunni.
12. Jóhannes postuli í gröf sinni.4
Grunnur altarisklæðisins er gerður úr hvítum hör, en marglitt ullar- og hörgarn er notað í útsauminn. Hann er svonefndur refilsaumur (e: couch-and-laid) sem er talin merkasta íslenska útsaumsgerðin og er algengur á altarisklæðum frá síðmiðöldum.5 Refilsaumur er saumaður eftir frjálsum munstrum sem teiknuð eru á grunninn, fyrst með grófgerðu garni og síðan er saumað þvert yfir grófu undirsporin, oftast með fíngerðu garni, jafnvel silfurþræði.6 Ekki er vitað til þess að orðið refilsaumur komi fyrir annars staðar en í íslenskum heimildum.
Reflar frá miðöldum túlkuðu oftast eða greindu frá einhverjum ákveðnum atburðum eða sögum og stundum var jafnvel talið að þar mætti finna dulin skilaboð. Þeir voru þó oftast trúarlegs eðlis eins og sjá má á mörgum miðaldareflum sem oftast voru hafðir til að tjalda að innan kirkjur og híbýli fólks til skjóls en einnig til fróðleiks og skrauts.7 Þekktastur þessara miðaldarefla er án efa hinn frægi refill frá Bayeux í Frakklandi frá seinni hluta 11. aldar, en útsaumsgerð hans svipar mjög til íslenska refilsaumsins.8 Greinir þar frá orrustunni við Hastings á Englandi árið 1066 þegar Haraldur harðráði féll fyrir Vilhjálmi sigursæla. Bayeuxrefillinn sem er 70 m langur og um hálfs metra breiður9 túlkar þessa orrustu en jafnframt er þar sögð merkileg „neðanmálssaga“ sem greinir frá hinu daglega lífi fólks þessa tíma.
Þess má geta að væntanleg er vegleg útgáfa bókar Þjóðminjasafns Íslands um íslensku refilsaumuðu klæðin sem byggð er á áralöngum rannsóknum Elsu E. Guðjónsson, fyrrum textíl- og búningafræðings við Þjóðminjasafn Íslands. Klæðin eru fimmtán talsins, flest altarisklæði en einungis hefur varðveist einn refill, Hvammsrefillinn, þótt refla sé víða getið í heimildum.
Gróa Finnsdóttir
Heimildir og ítarefni:
Elsa E. Guðjónsson. (1985). Íslenskur útsaumur. Reykjavík: Veröld.
Gísli Gestsson. (1964). Altarisklæði frá Svalbarði. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1963, bls. 5-37.
Haraldur Þór Egilsson. (2007). Minjasafnskirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.) Kirkjur Íslands, 10. bindi, bls. 173-193. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands o.fl.
Rud, Mogens. (2000). Bayeuxtapeten och slaget vid Hastings 1066. Köpenhamn: Christian Ejlers forlag.
Sarpur.is: https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=317791
Þóra Kristjánsdóttir. (1999). Gersemar: fornir kirkjugripir úr Eyjafirði í vörslu Þjóðminjasafns Íslands. Akureyri: Minjasafnið á Akureyri.
1) Haraldur Þór Egilsson, bls. 174.
2) Sarpur.is: https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=317791
3) Gísli Gestsson, bls. 5-37.
4) Gísli Gestsson, bls. 5-6 og Þóra Kristjánsdóttir, bls. 16.
5) Elsa E. Guðjónsson, bls. 14.
6) Elsa E. Guðjónsson, bls.16
7) Rud, Mogens bls. 12
8) Rud, Mogens bls. 12 (mynd)
9) Rud, Mogens bls. 9