Gríman frá Stóruborg
Janúar 2017
Á síðustu árum og áratugum hafa fornleifarannsóknir skilað okkur merkum gripum, sem oft hafa veitt okkur nýja og spennandi sýn inn í fortíðina. Má þar m.a. benda á nokkrar stórar rannsóknir eins og á Bessastöðum, Gásum, Hólum, Skálholti og Skriðuklaustri, þar sem leifar mörg þúsund forngripa hafa fundist. Ein af þessum stóru og áhugaverðu fornleifarannsóknum fór fram á Stóruborg undir Eyjafjöllum á árunum 1978-1990, þar sem fornleifafræðingar undir stjórn Mjallar Snæsdóttur, grófu upp bæjarhólinn í kapphlaupi við hafið, sem var að brjóta hann niður. Árið 1980 fannst þar dálítil fjöl sem í gagnagrunninum Sarpi hefur skráningarnúmerið 1980-121-379. Fjölin er hvorki úr verðmætum málmi, fagurlega útskorin eða óvenju forn. Fáir forngripir hafa samt hreyft jafn mikið við ímyndunarafli manna.
Fjölin er 35 cm löng, 19,5 cm breið og 4 cm þykk, mjókkar í annann endann og er með greinilegu andlitslagi. Tvö göt hafa verið boruð þar sem augun eiga að vera og einnig hefur verið borað og skorið út gat fyrir munninn. Markað hefur verið fyrir nefinu með grunnum skorum. Sex naglar hafa verið reknir inn í hliðar fjalarinnar og líklega hafa þeir verið notaðir til þess að festa hár og skegg við grímuna, eða eitthvað annað, svo að hægt væri að bera hana fyrir andliti. Engin vafi virðist því leika á að þetta er trégríma og á hún sér enga aðra hliðstæðu hér á landi. Þegar hún birtist fornleifafræðingunum í jarðveginum, þótti þeim hún helst minna á afrískar dansgrímur.
Notkun grímunnar er óviss, en ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um tilgang hennar. M.a. að hún hafi verið gerð sem leikfang handa börnum, eða að hún hafi verið notuð við einhvers konar fjölkyngi- eða galdraathafnir. Þá hefur þeirri tilgátu einnig verið varpað fram að gríman hafi verið borin við forna jólaleiki, af púkanum sem fylgdi heilögum Nikulási. Sennilegast má þó ætla að gríman hafi verið notuð við forna dansa eða leiki, þar sem einhver þátttakenda klæddist gervi og bar grímu.
Hver sem notkunin hefur verið er gríman mikilúðleg og skemmtilegur gripur sem gefur okkur dálitla innsýn í horfinn hugmyndaheim, sem í dag er hægt að túlka með margvíslegum hætti.
Um aldur grímunnar er það að segja að hún fannst í mannvistarlögum sem eru vart eldri en frá um 1600, þannig að gríman er því sennilega frá 17. öld. Mun þetta vera elsta andlitsgríma sem fundist hefur á Norðurlöndum.
Guðmundur Ólafsson
Heimildir
Guðmundur Ólafsson. 1990. Jólakötturinn og uppruni hans. Í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1989. Bls. 111-120. Reykjavík: Hið íslenzka fornleifafélag.
Gunnell, Terry. 1995. The origins of drama in Scandiavia. Cambridge: D.S.Brewer.
Jón Árnason. 1954. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri I. Reykjavík.
Jón Samsonarson. 1964. Kvæði og dansleikir I. Reykjavík.
Mjöll Snæsdóttir. 1990. Andlitsmynd frá Stóruborg undir Eyjafjöllum. Í Yrkja. Afmælisrit til Vigdísar Finnbogadóttur 15. apríl 1990. Bls. 169-171. Ritstj. Heimir Pálsson, Jónas Kristjánsson, Njörður P. Njarðvík og Sigríður Th. Erlendsdóttir. Reykjavík: Iðunn.
Mjöll Snæsdóttir. 1991. Stóraborg. Fornleifarannsókn 1978-1990, Sýningarskrá. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.