Helgimynd frá miðöldum
OKTÓBER 2017
Þjms. 10943/1930-354
Gripur októbermánaðar er helgimynd úr kaþólskum sið og sýnir Maríu mey og Önnu en sjálft Jesúbarnið sem setið hefur í kjöltu Önnu vantar. Gripurinn sem sennilega er frá fyrri hluta 16. aldar kom til safnsins árið 1930 sem gjöf frá Danska þjóðminjasafninu og hefur trúlega komið með annarri helgimynd frá Grund í Eyjafirði.1
Matthías Þórðarson, þáverandi þjóðminjavörður lýsir gripnum svo í aðfangabók safnsins:
„Önnu-mynd og Maríu. María hefur haldið á Jesú á knje sjer, en hann er nú af. Anna situr á bekk og vantar nú bríkina hægra megin og mikið þar af fótstallinum, vinstri bríkin og bakið eru bæði útskorin í rendur. Hæð 47,5 cm, breidd baksins um 22 cm. María situr á stóli innan við bríkina vinstra megin: hún hefur brúðarkórónu á höfði og slegið hár í hrokknum lokkum, er falla lausir út yfir kápu hennar. Anna ber höfuðdúk: hún heldur bók opinni á skauti sjer. Hægri hönd hennar vantar. Hún hefur kápu yfir sjer, algyllta og bláfóðraða: eins María en kyrtlarnir eru dökkrauðir. Mikið er eftir af gyllingu og litum, en þó víða farið af. Verkið er mjög líkt og [helgimynd] nr. 10942." 2
Eins og fyrr segir er líklegt talið að helgimyndin sé ættuð frá Grund í Eyjafriði og að hún hafi verið send ásamt svipaðri helgimynd til Danmerkur árið 1852 af Ólafi Briem.3
/GF
1) Sjá sarpur.is: þjms. nr. 10943.
2) Sjá sarpur.is: þjms. nr. 10942.
3) Kirkjur Íslands, 10. bindi. 2007. Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands.