Liebvig kjötkraftur
Janúar 2015
Margir vöruframleiðendur hafa notað ókeypis myndir til söluhvatningar á varningi. Er þá skemmst að minnast mynda af fegurðardrottningum, íslenskum skipum eða landslagi sem fylgdu með kaupum á sígarettupökkum frá Westminster og Teofani á Íslandi um 1930. Líta má nær í tíma til svonefndra tyggjómynda eða alls kyns varnings sem leynist í morgunkornspökkum.
Fáir voru afkastameiri á þessu sviði en framleiðendur Liebvig kjötkrafts í Þýskalandi, en myndir fylgdu vörum þeirra í nær 100 ár allt frá árinu 1867 til ársins 1962.
Nokkrar myndir yfirleitt sex talsins mynduðu syrpu eða myndaröð um tiltekinn efnisflokk og fylgdi ein mynd við hver vörukaup. Þetta var kauphvejandi því að þá freistaðist fólk til að kaupa meira í von um að eignast alla myndaröðina. Alls er talið að gefnar hafi verið út meira en 1.900 slíkar syrpur á vegum Liebvig með yfir 10.000 myndum. Fyrirtækið réði til sín marga þekkta myndlistarmenn til að teikna og hanna myndirnar. Myndefnið var fjölbreytt og spannaði bæði veraldarsöguna og allan heiminn, allt frá ævintýrum Gullivers, farartækjum flugsögunnar, einstökum löndum og borgum, frægum skáldum og óperum til gróðurs jarðar og dýraríkisins, enda viðskiptavinirnir dreifðir um heiminn og áhugasvið þeirra fjölbreytt. Á bakhliðina voru prentaðir fróðleiksmolar tengdir myndefninu. Yfir og allt um kring sveif svo nafn Liebvigs fyrirtækisins og myndir af ílátum með kjötkrafti.
Tvær litfagrar en ólíkar syrpur helgaðar Íslandi voru gefnar út á vegum Liebvig. Sú fyrri árið 1911 en sú síðari árið 1934. Fyrri syrpan var prentuð á fimm tungumálum belgísku, frönsku, hollensku, ítölsku og þýsku. Myndefnið var samsett úr meginmynd með aukamynd eða aukamyndum og ýmsu skrauti sem hafði vísun í tréskurð og íslenska forngripi.
Heiti myndanna voru: íslensk jarðaför, höfuðstaðurinn Reykjavík, heitu laugarnar við Reykjavík, hvalveiðistöð við strönd Íslands, Almannagjá við Þingvelli og íslenskur bóndabær. Teikningarnar eru sýnilega gerðar eftir fyrirmyndum, ýmist ljósmyndum eða grafíkmyndum. Athygli vekur hvað myndirnar sem þær byggja á spanna langan tíma. Teikning úr Gaimard leiðangri frá 1836 er fyrirmynd að aðalmynd jarðarfaramyndarinnar og yfirlitsmyndin af Reykjavík er frá því um 1890? Þessi ólíki tími í fyrirmyndunum gerir margar myndanna sérkennilegar fyrir kunnuga.
Liebig kjörkrafturinn var seldur hér á landi og líklega hafa myndir fylgt honum hér sem annars staðar. Íslandsmyndirnar hafa hins vegar borist hingað á síðustu árum eins og margir aðrir söfnunargripir sem vísa til lands og þjóðar.
Inga Lára Baldvinsdóttir