Loftskip
Maí 2016
Þessa eftirlíkingu af loftskipi, gerð úr blikki, keypti Sigríður Björnsdóttir Blöndal handa syni sínum, Birni Jónssyni Blöndal, í versluninni Thorngren á Strikinu í Kaupmannahöfn um 1910. Í skráningu í Sarpi segir: „að forminu til er leikfangið sívalt í laginu. Það er gult með litlum rauðum þyrlum, einni fremst og einni á sitthvorri hlið. Hægt er að draga loftfarið upp og snúast þá þyrlurnar, bandspotti hangir neðan í og mátti binda hann við eitthvað t.d. ljósakrónu og sigldi eða flaug þá loftfarið um í hringi. Það er framleitt í Þýskalandi merkt fyrirtækinu Lehmann EPL-II nr. 652.“1
Leikfangið var framleitt af þýska leikfangaframleiðandanum Ernst Paul Lehmann Patentwerk á árunum 1912 til 1938 en það fyrirtæki er enn starfrækt í dag.2
Fyrstu loftskipin voru smíðuð af þýska greifanum von Zeppelin í kringum aldamótin 1900, en um áratug tók að þróa þau. Loftskipin voru nýtt af Þjóðverjum til hernaðar í fyrri heimsstyrjöldinni.
Loftskipið Graf Zeppelin var stærsta loftskipið sem smíðað var en smíði þess lauk árið 1928.3 Það flaug tvisvar til Íslands. 17. júlí 1930 flaug loftskipið yfir Reykjavík en hafði þá aðeins loftskeytasamband4 og um ári síðar, þann 1. júlí 1931, kom það öðru sinni til bæjarins. Þá hafði loftskipið viðdvöl fyrir ofan Öskjuhlíð og voru þá tveir póstpokar hífðir upp í það, en 5 slíkum pokum fleygt út úr því á móti.5 Margir tóku myndir af þessum viðburðum og hafa ljósmyndir sem sýna loftskipið við hin ýmsu reykvísku og íslensku kennileiti varðveist. Má segja að þær myndir séu að vissu leyti súrrealískar þar sem loftskip virðist ekki passa inn í aðstæður og hefur það eflaust verið upplifun fólks er það sá skipið fljúga yfir. Þetta hefur án efa verið merkisviðburður, enda „þustu bæjarbúar á fætur og fjölmenntu suður á Öskuhlíð til að fagna loftfarinu“.6
Sérstakur póststimpill var gerður fyrir ferðina eins og gilti um flestar ferðir loftskipsins. Hann var þríhyrndur, grænn að lit og stóð á honum „Luftschiff Graf Zeppelin Islandsfahrt 1931“. Eftirsóknarvert þótti að eiga póst stimplaðan í loftskipinu.7 Samhliða voru teknar loftljósmyndir úr skipinu og seldar að förinni lokinni. Þannig eru til merkilegar myndir meðal annars úr Austur Skaftafellssýslu en þangað kom loftfarið fyrst að landi.
Þjms. 1972-17
Kristín Halla Baldvinsdóttir