Lýðveldisskildir
Júní 2014
Öðru hverju berast gripir til safna og eru lagðir til hliðar af einhverjum orsökum, stundum vegna þess að nálægð þeirra í tíma gerir það erfitt að meta menningarlegt gildi þeirra til framtíðar. Gripir júnímánaðar eru skildir sem fá á 17. júní loksins skráningu í safn Þjóðminjasafnsins.
Í geymslum Þjóðminjasafnsins leynast fjórir skildir sem gerðir voru í tilefni stofnunar Lýðveldisins Íslands þann 17. júní árið 1944. Þeir hafa aldrei verið skráðir í safnið, en bót verður unnin á því nú þegar 70 ár eru liðin frá Lýðveldisstofnun. Einhvern tíma stóð jafnvel til að farga þessum skjöldum, en af því varð sem betur fer ekki.
Þjóðhátíðarnefnd, sem annaðist undirbúning hátíðarhaldanna, stóð fyrir samkeppni um besta hátíðarkvæðið. Hulda skáldkona og Jóhannes úr Kötlum unnu samkeppnina1 og hátíðarkvæðin hafa fylgt þjóðinni síðan. Auk þess var haldin samkeppni um hönnun á merki í tilefni Lýðveldisstofnunar og varð tillaga Stefáns Jónssonar (1913-1989) teiknara og arkitekts hlutskörpust. Stefán var á þeim tíma einn helsti teiknari landsins. Merkið sýnir ársól rísa yfir íslenska fánanum og hefur átt að hafa táknræna merkingu fyrir nýstofnað lýðveldi og sveipa fánann gullnum geislum.
Fjöldi stórra skjalda, eins og þeirra fjögurra sem varðveist hafa í Þjóðminjasafninu, var smíðaður. Þá má sjá nokkuð víða á ljósmyndum frá hátíðarhöldunum. Þeim var m. a. komið fyrir á Lögbergi á Þingvöllum þann 17. júní og á ýmsum húsum í Reykjavík við hátíðahöldin þar þann 18. júní, t.d. á Stjórnarráðshúsinu, á svölum Alþingishússins, á húsunum við Lækjargötu 2, Austurstræti 22, yfir dyrum og í gluggum verslunar Haraldar Árnasonar við Lækjartorg og á Símstöðvarhúsinu við Austurvöll.
Merki Lýðveldishátíðarinnar skreytti ekki aðeins hús í Reykjavík og hátíðarsvæði. Það var einnig framleitt sem barmmerki og var selt um land allt. Merkin nutu mikilla vinsælda. Í Vísi þann 21. júní 1944 er auglýsing frá Þjóðhátíðarnefndinni þar sem sagt er frá því að barmmerkin, 30 þúsund talsins, séu öll uppseld en að beðið sé eftir nýrri sendingu. Nokkur þessara barmmerkja eru varðveitt í Þjóðminjasafni Íslands.Þá voru framleiddir veggskildir úr málmi með lýðveldishátíðarmerkinu og þeir seldir sem minjagripir. Nokkrir slíkir eru einnig varðveittir í Þjóðminjasafni Íslands ásamt ýmsum öðrum gripum með þessu táknræna og vinsæla merki.
Erfitt getur reynst að lesa samtíma sinn og oft þarf fjarlægð í tíma til að átta sig á menningarsögulegu gildi gripa. Við sjáum nú að það var rétt ákvörðun að farga ekki skjöldunum á sínum tíma og nú verða þeir loks skráðir í safnkost Þjóðminjasafnsins.
Kristín Halla Baldvinsdóttir
Heimildir:
[1] Verkamaðurinn 27. árg. 17. tbl. 29.04.1944, bls. 3.