Ölkanna örlaganna
Apríl 2014
ÞJM 8245
Þjóðminjasafnið varðveitir yfir 350.000 gripi og allir hafa þeir sögu að geyma. Hér er saga um ölkönnu úr silfri sem talin er vera dönsk smíð frá síðasta fjórðungi 17. aldar. Kannan tilheyrði ætt sem er kennd við Krossavík í Vopnafirði og átti á sínum tíma mikla silfursóði. Að auki tengist kannan sögu af ungum manni sem tók örlagaríka ákvörðun.
Á tímabili leið mér eins og ég gjörþekkti alla gripina á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins. Mér fannst ég vera búin að lúslesa alla texta á sýningunni, opna allar skúffur og skoða hvern hlut vandlega. En svo vildi það til að ég hitti safngest sem var kominn alla leið frá Bandaríkjunum til að finna ákveðna gripi á sýningunni. Það reyndust vera silfurgripir sem á sýningunni er stillt upp í samhengi við stéttaskiptingu íslensks samfélags á 17.-18. öld.
Gesturinn var vel undirbúinn og hafði skráningarnúmer gripanna sem hann leitaði að meðferðis. Á botni ölkönnu úr silfri sem stóð þarna í hillunni fann ég merkingu og þegar ég stautaði mig fram úr skráningarnúmerinu heyrði ég að gestur minn greip andann á lofti. Hann starði á könnuna og það kviknaði glampi í augum hans. Út af viðbrögðum hans horfði ég líka á fíngerða könnuna í glerskápnum þar sem hún stendur á þremur kúlulaga fótum. Um leið rann upp fyrir mér að ég hafði í raun aldrei veitt henni neina sérstaka athygli. Hvað var það sem gestur minn sá í þessari ölkönnu?
Hann sagði mér afi sinn hefði fæðst á Íslandi og sem unglingur eignaðist hann þessa könnu ásamt fleiri silfurgripum. Hann erfði silfrið ásamt jarðarparti eftir foreldra sína rétt eftir fermingu. En afi hans átti silfrið ekki lengi, því hann ákvað að selja það ásamt sínum hluta í jörðinni og kaupa sér þess í stað far til Kanada. Og hér stóðum við, barnabarn hans og ég, og horfðum á örlagasilfrið í skápnum. Þessi silfurkanna átti sinn þátt í að breyta íslenskri fjölskyldu í vestur-íslenska. Frá Kanada hafði fjölskylda hans seinna flust til Minnesota í Bandaríkjunum þar sem gestur minn býr enn í dag.
Silfur var gjarnan notað sem fjárfesting fyrr á tímum og auðugir einstaklingar keyptu silfur því það hélt verðgildi sínu betur en ýmis önnur fjárfesting. Einstaka fjölskyldur áttu allverulega silfursjóði, jafnvel svo mikla að sögur fóru af. Sögurnar af silfurauðnum í Krossavík fóru víða og fyrir vikið er iðulega talað um Krossavíkursilfrið með ákveðnum greini. Meira að segja varð til orðatiltæki sem gripið var til þegar átti að gera lítið úr einhverju sem þó átti það ekki skilið. Þá er hægt að segja: „Þetta er nú eins og safi hjá silfrinu í Krossavík“.
Á loki könnunnar er áletrun með ártalinu 1737 og nöfnunum Torsten Sigurðsson og Björg Paals Dotter. Í heimildum um könnuna segir að hún hafi síðar verið í eigu Þórunnar Guðmundsdóttur (d. 1785) og Guðmundar Péturssonar (d. 1811) sýslumanns í Krossavík og barnabarns þeirra Þorsteins og Björgu. Það fylgir ekki sögunni hvernig afi gests míns tengist Krossavík eða hvaða leið ölkannan rataði í hendur hans. En eftir að hafa heyrt þessa sögu geng ég aldrei framhjá könnunni án þess að líta í áttina til hennar. Ég sé unglinginn fyrir mér þar sem hann stendur með silfrið í höndunum og veltir fyrir sér hvort hann eigi að selja. Hvort hann eigi að slá til. Saga ölkönnunnar spannar tæp þrjúhundruð ár en skarast aðeins í stutta stund við sögu unglingsins sem ákvað að fara til Kanada. Það er magnað að hugsa til þess hve margir hafa átt og handleikið alla þessa gripi sem eru í Þjóðminjasafninu. Á grunnsýningunni eru um 3.000 hlutir til sýnis og ég veit það núna að það er ógjörningur að þekkja sögu þeirra allra. Gripunum er raðað í ákveðið samhengi á sýningunni og þeir látnir segja sögu íslensku þjóðarinnar, sem er stór saga. Í þessu tilviki er það hinsvegar stutta, persónulega sagan sem fangaði huga minn. Saga, sem er kannski „eins og safi“ hjá stóru sögunni en býr engu að síður yfir örlögum heillar fjölskyldu.
Hlín Gylfadóttir
Heimildir:
Sarpur. Menningarsögulegt gagnasafn. Sótt 13. mars 2014. Aðgengilegt á slóðinni: http://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=323982
Þór Magnússon. Íslenzk silfursmíð, 1.-2. bindi, Reykjavík, 2013