Púkkborð
Desember 2016
Spilið púkk var víða spilað eingöngu á jólum og er sá siður enn viðhafður á vissum heimilum. Í Spilabók Fjallkonuútgáfunnar frá því 1914 eru talin upp nokkur spil sem sérstaklega eru talin íslensk. Þeirra á meðal eru púkk, alkort, treikort, marías, skelkur, brús, handkurra, hjónasæng, þjófur, lauma, framhjátaka, svarti-Pétur og hundur. Þó má gera ráð fyrir að flest þessara spila eigi sér erlendan uppruna þótt Eggert Ólafsson telji þau flest íslensk að uppruna, meðal annars púkkspilið (puck).
Púkk er spilað á venjuleg spil, en tekið úr þeim tvistar, þristar og fjarkar. Hverjum spilamanni var svo yfirleitt úthlutaður sérstakur teiknaður reitur fyrir ás, kóng, drottningu, gosa, tíu, pamfíl og púkk. Flestir létu sér nægja að teikna slíka reiti upp en aðrir höfðu meira við eins og sést á púkkborðinu sem hér er sýnt og er sérstaklega getið að sé varðveitt í „Þjóðmenjasafninu” í fyrrnefndri í Spilabók Fjallkonuútgáfunnar. Hefur það vafalítið þótt nokkur gersemi á sinni tíð og er frá árinu 1775. Púkkborðið er fjöl með merktum reitum fyrir þá spilapeninga sem „púkkað var upp á“ en einnig var algengt að nota þorskkvarnir sem spilapeninga. Fjölin er úr viði og skreytt með útskurði efst og skrautstöfunum LG. Púkkborðið er úr eigu Friðriks Þórarinssonar prests á Breiðabólstað í Vesturhópi, f. 1763, d. 1817 og kom til safnsins árið 1909.
Finna má reglur um það hvernig spila á púkk en eins og títt er um slíkar reglur ber þeim ekki alltaf saman. Hefur þetta vafalaust farið eftir landshlutum en talið er að púkk hafi verið vinsælast á Suðurlandi. Í fyrrnefndri Spilabók má finna ítarlegar spilareglur um púkk. Einnig veita svör við spurningaskrám þjóðháttasafns Þjóðminjasafnsins, mikilvægar upplýsingar um spilið, einkum svör við skrá nr. 39, Leikir barna: töfl og spil frá árinu 1979.
Gróa Finnsdóttir
Heimildir:
Árni Björnsson. (2000). Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.
Eggert Ólafsson. (1981). Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757. Reykjavík: Örn og Örlygur.
Spilabók. (1914). Reykjavík: Fjallkonuútgáfan.
Sarpur.is: Þjms. 5688