Bílaleikur í Blesugróf
Maí 2016
Við erum stödd íBlesugróf í Reykjavík einn sólríkan maídag árið1966. Hópur ungra drengja er saman kominn á sandhól þar sem þeir leika sér með leikfangabíla. Bílarnir eru smáar eftirlíkingar vörubíla og vinnuvéla og drengirnir líkja eftir vinnu hinna fullorðnu í leik sínum; moka sandi á vörubílspall, leggja vegi og móta vinnusvæði eða byggð.
Leiksvæði drengjanna á myndinni er kjörlendi ungra pilta þar sem draumar rætast og framkvæmdagleðin og hugmyndaflugið ráða ferðinni. Þeir geta mótað landið og reynt á tæki sín eins og mögulegt er; bílarnir komast torfærar slóðir og leiknum eru engin takmörk sett. En það er ekki einungis frelsið og sköpunin sem fylgir leiknum heldur reynir hér á samskipti og samvinnu drengja á ólíkum aldri sem sameinast íleik.
Fjölbreytni í leikfangaúrvali var að aukast á þessum árum og innflutt leikföng urðu algengari. Innflutt leikföng fóru fyrst að sjást hér á landi á síðari hluta 19. aldar, m.a. ýmiskonar ökutæki en það var síður en svo að öll börn gætu eignast slíkar gersemar. Það var ekki fyrr en upp úr 1945 að innflutt leikföng fóru að vera meira áberandi hér á landi, en þá fremur í þéttbýli en sveitum. En þó ekki hafi verið á allra færi að eignast fjöldaframleidda glæsikerru kom það ekki í veg fyrir að börn léku sér í bílaleik. Heimatilbúnir bílar voru algengir, allt frá minni bílum upp í stærri kassabíla sem hægt var að sitja í. Oft voru það börnin sjálf sem útbjuggu bílana úr efni sem til féll, en einnig voru ýmsir hagleiksmenn og smiðir sem smíðuðu leikfangabíla og kassabíla og gáfu eða seldu. Með tilkomu Reykjalundar og verkstæðanna sem þar voru starfrækt var farið að fjöldaframleiða leikföng hér álandi. Upp úr 1950 tekur plastiðja Reykjalundar til starfa og fljótlega er farið að framleiða leikföng úr plasti, m.a. bíla, en þar höfðu áður verið framleiddir bílar á trésmíðaverkstæði. Bílarnir sem drengirnir á myndinni leika sér með eru ekki ósvipaðir þeim sem Reykjalundur framleiddi en þeir gætu líka verið innfluttir, ef til vill svokallaðir Matchbox bílar en leikfangabílar frá því vörumerki hafa notið gríðarlegra vinsælda allar götur frá því þeir komu fram á sjónarsviðið árið 1953.
En hvort sem drengirnir leika sér með innflutta leikfangabíla eða íslenka framleiðslu þá njóta þeir leiksins og þess að vera frjálsir úti í veðurblíðunni og láta ljósmyndarann ekki tefja sig fráleiknum.
Eins og margar mynda Vilborgar Harðardóttur blaðakonu, varðveitir þessi mynd hversdagsleikann og er áhugaverð heimild um líf og leik barna á þessum tíma. Myndin er ein af sjö myndum sem Vilborg tók af drengjunum í Blesugrófinni þennan dag í maí 1966.
VH-23-1
Sigurlaug Jóna Hannesdóttir