Einar en umkringdar fólki
Janúar 2016
Lengi hafa þær fylgt mér myndirnar af konunum tveimur, sem Magnús Gíslason ljósmyndari myndaði austur á Eyrarbakka, líklega sumarið 1904.
Á sitt hvorri myndinni sitja þær svipbrigðalausar á peysufötum á stól og hvíla annan handlegginn á dúkuðu borði og halda höndum saman með salúnsofna ábreiðu að baki sér í stað myndatjalds. Þeim er stillt upp aðeins á ská við myndavélina, þær horfa því til hliðar við linsuna og við mætum því ekki augum þeirra. Uppstilling kvennanna er sambærileg. Sérstaða myndanna felst í þeim hlutum sem standa á borðinu; blómavasa með ámáluðu blómamynstri og blómvendi með blöndu af þurrblómum, stráum og skrauti og ljósmyndum í römmum sem tyllt hefur verið upp hjá vasanum eða við vasann. Myndirnar tvær eru áþekkar og mynda eins konar par.
Þrjú eintök hvorrar myndar hafa borist til safnsins á sautján ára tímabili úr fjórum ólíkum áttum. Það er áminning um fjölföldunareðli ljósmyndarinnar og þess að yfirleitt voru pöntuð nokkur eintök hverrar myndar til að dreifa til ættingja og vina. Á bakhlið einnar myndarinnar er skrifað veikt með blýanti: „Katrín Hannesdóttir Sandgerði á Eyrarbakka dáin 14 Janúar 1919“ og því fer ekki á milli mála af hverjum myndin er. Á bakhlið einnar myndar af hinni konunni stendur „55 ára 1904“ og er þannig vísað í aldur konunnar sem situr fyrir og líklega árið sem myndin er tekin. Síðan er skrifað með penna á annað eintak „19996 ¼ örk brjóstm“. Númerið vísar til þess að gerð hefur verið eftirtaka eftir myndinni og ljósmyndarinn sem hana gerði skrifað númer eftirtökuplötunnar á bakhliðina. Við nánari skoðun kemur fram að það er á ljósmyndastofu Sigríðar Zoëga sem númerinu hefur verið bætt aftan á myndina árið 1928, nær aldarfjórðungi eftir að hún var tekin. Þar hefur verið gerð eftirtaka myndarinnar fyrir Guðmund Þorkelsson á Laugavegi 19 í Reykjavík. [1] Í ljós kemur að móðir Guðmundar var Þórunn Siggeirsdóttir (1850-1917) sem um hríð var búsett að Króki í Flóa, en hún var fædd sumarið 1850 og var því 54 ára árið 1904. Þórunn hefur verið í vinfengi við hjónin í Sandgerði á Eyrarbakka og dvalið hjá þeim öðru hvoru. [2] Sterkar líkur eru á því að þetta sé mynd af Þórunni, en ekki er kunnugt um aðra mynd af henni í söfnum.
Það eru samt ekki nöfn kvennanna eða leit að þeim sem kveikja áhugann á myndunum, heldur það að þær skuli kjósa að stilla innrömmuðum ljósmyndum upp við hlið sér á mynd. Af þeim mannamyndum úr þessari myndatökuferð Magnúsar sem við þekkjum, sem að vísu eru ekki mjög margar [3], eru ljósmyndir og vasinn með blómunum til skrauts aðeins á þessum tveimur. Dæmi um að fólk hafi ljósmyndir af öðru fólki með sér í myndatökur þekkjast af fleiri myndum hérlendis og ekki aðeins á fyrstu áratugum ljósmyndunar heldur langt fram eftir 20. öld. [4]
Þessi siður að fólk heldur á ljósmyndum við myndatöku eða er með þær uppstilltar við hið sér er einnig þekktur víða um heim allt frá upphafi ljósmyndunar. [5] Með því vildi fólk tryggja nærveru einhvers sem var ekki til staðar þegar myndin var tekin.
Myndirnar vekja margvíslegar spurningar. Af hverju kjósa konurnar að hafa ljósmyndir af öðru fólki með sér við myndatökuna? Hvaða fólk er það sem er á myndunum og hvernig tengist það konunum? Hvar var fólkið þegar myndirnar voru teknar?
Það liggja ekki fyrir algild svör við þessum spurningum, en það má velta hugsanlegum svörum fyrir sér. Nærvera fólksins á myndunum vitnar um væntumþykju kvennanna til þeirra er eins konar kærleikstákn. Þetta getur verið fólk sem af hendingu er fjarverandi þegar myndatakan fer fram. Svo virðist vera með eiginmann Katrínar, Guðmund Guðmundsson (1850-1930) verslunarmann og meðhjálpara, sem hún hefur kosið að hafa með sér á ljósmynd við myndatökuna. Hann hefur af einhverjum ástæðum ekki getað verið þar í eigin persónu. Við hlið Guðmundar er mynd af konu með dreng, hugsanlega frá Vesturheimi miðað við klæðnað konunnar. Átti Katrín ættmenni í Vesturheimi? Vera kann líka að einhver nákominn sé látinn en þær vilji samt hafa viðkomandi með sér á ljósmynd þó að það sé aðeins í myndlíki. Um slíkt eru ýmis dæmi.
Hin konan, sem gæti verið Þórunn Siggeirsdóttir, er með mynd af ungri konu og síðan lítilli stelpu í sérstæðum kjól, standandi við grjótvegg eða hleðslu og sjá má torfhús í bakgrunni. Við vitum ekki nema að hluta hverja þær Katrín og Þórunn hafa kosið að hafa með sér á myndunum til að minnast þeirra og tengja sig við þá, en við það verða myndirnar ekki bara minnisgripir um þær sjálfar heldur líka hina sem fylgja þeim á ljósmyndunum.
Inga Lára Baldvinsdóttir