Fagurfræði veðursins.
OKTÓBER 2019
Ljósmyndari Kristín Bogadóttir.
Lpr-2016-92.
Samtímaljósmyndarinn Kristín Bogadóttir sýndi í Þjóðminjasafninu sumarið 2016. Titilinn á sýningu hennar Dálítill sjór hljómaði kunnuglega fyrir þá sem komnir eru yfir miðjan aldur. Þó lestur veðurfrétta í útvarpi væri nokkuð eintóna festust viðlíka hugtök yfir veður í hugum hlustenda. Heiti veðurathugunarstaðanna urðu líka kunnugleg og staðirnir þekkt kennileiti.
Átta myndir voru á sýningu Kristínar. Þær voru frá þeim átta veðurathugunarstöðvum Veðurstofu Íslands sem mannaðar voru við sjó og þaðan sem sjóveðurspár voru enn lesnar á þeim tíma sem hún vann að myndröðinni. Kristín fór á þessa átta staði og myndaði hafið eins og það tók á móti henni á hverjum stað um leið og veðurmæling var gerð. Hún valdi myndefnið sem sagt ekki eftir því hvernig sjólagið var eða skýjafarið heldur réð veðurtakan ferðinni. Heiti staðanna og veðurlýsingarnar voru greyptar í rammann undir myndinni. Á ramma myndarinnar sem fylgir þessum texta stendur: Dalatangi, norðaustan 3, alskýjað, talsverður sjór, hiti 9 stig. Veðurlýsingin verður þannig hluti af verkinu og gefur því aukna vídd. Það er dýrmæt og hverfandi kunnátta að geta metið sjólag út frá öldum og skýjafar í ólíkum birtingarmyndum með því einu að horfa og hlusta á haf og himin. Kristínu segist svo frá:
“Veðurathugunarfólkið skoðar himininn, skýjafarið, horfir á öldurnar og metur hæðina á þeim. Skoðar hvort þær eru bylgjur, hvort þær brotna og hvort þær séu hvítar á toppnum. Út frá því er sjólagið metið sem er nokkurskonar veðurástand eða færð á sjónum og skiptir máli fyrir sjófarendur. Skyggnið er metið eftir því hvort hin ýmsu kennileiti sjást, t.d. er á Mánárbakka horft út á Mánáreyjar og á Sauðanesvita er gáð hvort sést í Grímsey. Allt myndar þetta eina heild sem þau lesa í.“1 Samhliða því að ljósmynda hafið myndaði Kristín líka veðurathugunarfólkið á vettvangi og tók við þau stutt viðtöl um starfið og viðhorf þeirra til veðurfars.
Dálítill sjór var ekki eingöngu myndaröð heldur hluti af lokaverkefni Kristínar í námi í listkennslu við LHÍ. Gefum henni sjálfri orðið: “Í verkefni þessu skoða ég fagurfræði hversdagsleikans, set listrannsókn mína á veðri í samhengi við hana og dreypi á umhverfislæsi og beini þar með sjónum að möguleikum listmenntunar í umhverfismennt. Með þessu verkefni vil ég benda á mikilvægi þess að vera læs á umhverfi sitt og að það sé markviss kennt í skólakerfinu og þá ekki síst í gegnum listir sem getur svo stuðlað að auknu næmi fyrir umhverfi og náttúru.”2
Verkefni Kristínar var margþætt og tilraun gerð til að setja það í fagurfræðilegt samhengi með vísun í kenningar um viðfangsefnið. Skírskotun þess var hvort tveggja þjóðfræðileg og söguleg en um leið alþjóðleg með vísun í umhverfisvernd og loftslágsvána sem minnir á sig með vaxandi þunga. Verkefnið talaði þannig beint inn í samtímann.
Myndaröð Kristínar Dálítill sjór er bara eitt fjölmargra verkefna sem samtímaljósmyndarar á Íslandi hafa tekist á við á liðnum áratug. Íslendingar af erlendum uppruna hafa víkkað það verkefnaval og gert sig gildandi í hópnum.
Nýr vettvangur opnaðist fyrir ljósmyndasýningar við enduropnun Þjóðminjasafnsins árið 2004 með sérstökum Myndasal og Vegg framan við hann. Þessi nýju sýningarrými sköpuðu ekki bara kærkominn vettvang fyrir sýningar úr safnkosti Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafni heldur líka fyrir íslenska samtímaljósmyndara.
Inga Lára Baldvinsdóttir
1) Kristín Bogadóttir. Um fagurfræði hversdagsleikans og dálítinn sjó. Ritgerð til M.Art.Ed.-prófs í listkennslufræðum, s. 23.
2) Kristín Bogadóttir. Um fagurfræði hversdagsleikans og dálítinn sjó. Ritgerð til M.Art.Ed.-prófs í listkennslufræðum, s. 3.