- Næsta færsla
- Fyrri færsla
Fornleifarannsóknir að Bergþórshvoli og leitin að Njálsbrennu
Desember 2012
Ólafur Magnússon / Magnús Ólafsson. ÓM/MÓL-1329.
Myndin er tekin af Magnúsi Ólafssyni af tveimur mönnum við fornleifarannsóknir að Bergþórshvoli, að öllum líkindum sumarið 1928. Maðurinn vinstra megin á myndinni er Matthías Þórðarson þáverandi þjóðminjavörður og til hægri er ónafngreindur aðstoðarmaður við frágang viðarleifa til flutnings á Þjóðminjasafnið.
Þetta voru ekki fyrstu fornleifarannsóknirnar að Bergþórshvoli. Sigurður Vigfússon, forstöðumaður Forngripasafnsins á árunum 1878 til 1892, gróf prufuholur í bæjarhólinn á Bergþórshvoli sumrin 1883 og 1885, og í yfirliti sínu yfir íslenska sögustaði frá 1877 hafði Kristian Kålund greint frá því að í matjurtagarði framan við bæjarhúsin hafi fundist öskulag og brenndar bronsþynnur. Kålund hafði jafnframt fregnir af því að áður hefði fundist brunnið torf við endurbyggingu húsa austast í bæjarhólnum. Hann var þó ekki sannfærður um að um leifar Njálsbrennu væri að ræða heldur gæti askan eins verið úr gömlum öskuhaugum sem voru við bæina. Njálssaga var aftur á móti hvatinn að rannsóknum Sigurðar og var hann þess fullviss að viðarleifar og annað sem fannst í prufholunum væru leifar Njálsbrennu. Meðal merkustu funda Sigurðar eru leifar mjólkurmats, hugsanlega skyrs, sem enn eru varðveittar á Þjóðminjasafninu.
Árið 1926 var byggt nýtt íbúðarhús á bænum og var staðsetning þess austast í bæjarhólnum að ráði þjóðminjavarðar, sem áleit að með því væri minnst hætta á að fornleifum í hólnum yrði raskað. Þegar grafið var fyrir kjallara hússins kom í ljós öskulag í horni grunnsins og fundust þar ýmsir munir sem rekja má til miðalda, meðal annars lítil fjöl með rúnaletri. Vakti fundurinn mikla athygli og í kjölfarið var farið að huga að stærri rannsókn á Bergþórshvoli. Matthías fór þess á leit við Stjórnarráðið að veitt yrði opinbert fé til rannsóknarinnar og áætlaði að 5000 krónur þyrfti til uppgraftarins, flutnings gripa, frágangs þeirra og varðveislu, sem og viðeigandi frágangi á uppgraftarsvæðinu. Fjárveiting fékkst og sumarið 1927 var hafist handa við umfangsmikla rannsókn.
Skemmst er frá því að segja að ekki fundust leifar Njálsbrennu, og heldur ekki þegar rannsóknum var haldið áfram 1928 og 1931. Ekki var þó gefist upp á leitinni að ummerkjum Njálsbrennu og fyrir tilmæli Hins íslenzka fornritafélags gróf Kristján Eldjárn, síðar þjóðminjavörður, könnunarskurði víða um bæjarhólinn haustið 1950. Vestan við rannsóknarsvæði Matthíasar fann Kristján brunaleifar og var á ný ráðist í stóra rannsókn sumarið 1951. Brunaleifarnar reyndust vera af fjósi og sofnhúsi. Engir gripir fundust í brunaleifunum sem tímasett gætu brunann nákvæmlega en Kristján taldi húsin hafa brunnið í lok víkingaaldar.
Kristján og Gísli Gestson gerðu rannsóknunum á Bergþórshvoli ítarleg skil í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1951-1952 og segir í lokaorðum þeirra að þó hvatinn að rannsóknunum hafi verið leitin að Njálsbrennu hafi rannsóknirnar ótvírætt gildi fyrir almenna menningarsögu. Ekki vildu þeir afskrifa Njálsbrennu með öllu og hófu þeir greinargerð sína með þessum orðum: „Varla er þess að vænta, að fleiri uppgreftir verði gerðir á Bergþórshvoli fyrst um sinn, nema hið ólíklega gerðist, að brunaleifar af bæ Njáls fyndust á einhverjum stað í landareigninni, sem engum hefur komið í hug að leita á.“
Brynja Björk Birgisdóttir