Kári Sturluson: Lausaganga ferðamanna í Reykjavík
Júní 2016
Póstkort hafa verið hluti af lífi manna um langa hríð en saga þeirra hér á landi nær allt aftur til aldamótanna 1900. Ákveðnar breytingar í póstkerfinu í Evrópu á 19. öld urðu til þess að einfaldara en áður varð að senda stutt bréfskeyti milli staða. Póstkortið varð þannig helsti miðillinn til að veita vinum og ættingjum hlutdeild í framandi stöðum á ferðalögum fólks.
Útgáfa póstkorta var lífleg alla 20. öld hér á landi sem annars staðar og lituð af tíðaranda og stíl hvers tíma sem og viðfangsefnum útgefenda.
Upp úr aldamótunum 2000 og einkum eftir að Facebook, Twitter og aðrir samfélagsmiðlar komu til sögunnar um og eftir 2005 hefur orðið gjörbylting á miðlun fólks á ferðalögum. Þróun sífellt öflugri snjallsíma á þar einnig stóran hlut að máli. Að sitja á kaffihúsi í útlandi og skrifa póstkort hefur vikið fyrir „selfie“ með umhverfinu í bakgrunni yfir kaffibollanum, eða bollanum sjálfum. Því er svo í sömu andrá veitt inn á samfélagsmiðlana.
Útgáfa póstkorta árið 2011 með myndum af erlendum ferðamönnum í ýmsum aðstæðum í Reykjavík vekur því undrun. Segja má að póstkortin séu framhaldslíf á ljósmyndasýningu þar sem efnið var sýnt. Það að gefa út póstkort með myndum teknum á síma á þessum tíma mætti kalla afturhvarf á pappírinn á svipaðan hátt og nú á tímum stafrænnar tækni eru vissir hópar ljósmyndara sem velja að taka á filmur og kynnast eldri tæknilegum veruleika. Í þessu vali felst ákveðinn mótþrói gagnvart hinu stafræna normi nútímans.
Ferðalangar með rúllutöskur í eftirdragi er tilvísun í algengan veruleika borgarbúa. Við sjónum blasa ferðamenn á óvæntum stöðum þar sem heimamönnum dytti ekki í hug að leggja leið sína. En ef rata þarf eftir korti í ókunnri borg kemur fyrir að leiðaval verði ekki jafnfallegt og ef heimamenn ættu í hlut. Í titli póstkortaseríu Kára Sturlusonar liggur orðalagið „lausaganga búrfjár“ milli línanna en ferðamenn eru jú hinn nýi búpeningur Íslendinga sem þeir hafa drjúgar tekjur af. Segja má að þessi sería póstkorta sé í raun sjálfstætt konseptverk, nokkurs konar manngerður steingervingur póstkorta á tímum þegar aðrir miðlar hafa tekið við gamalgrónu upplýsingahlutverki kortanna.
Guðrún Harðardóttir