Naustin / Tryggvagata
Apríl 2015
Ritstj. Inga Lára Baldvinsdóttir
Ljósmynd Kristinn Guðmundsson (KG-502)
Í gagnmerku myndasafni Kristins Guðmundssonar er meðal annars að finna þessa mynd af húsunum á horni Tryggvagötu og Naustanna. Varla verður sagt að augun staldri við fegurð húsanna eða heilsteypta götumynd. Öðru nær, það væri mun frekar að vaknaði forvitni um hvað leyndist bak við allar þessar byrgðu dyr, glugga og bílskúrshurðir. Lítil sem engin starfsemi virðist vera í þessum húsum öllum á þessum tíma ef frá er talið húsið t.v. á myndinni, þar hefur verslunin Blóm og ávextir verið starfrækt. Í götuskrá hefur þetta hús haft götuheitin Hafnarstræti 1a, Hafnarstræti 3 og er núna Naustin 1.
Þrátt fyrir heldur dapurlegt yfirbragð á þessum tíma, um 1978-1982, hafa þessi hús flest átt mikla sögu á fyrri hluta 20. aldar og eru þau afurð þeirra tíma samgönguhátta og flutningatækni. Þegar hér var komið sögu höfðu tímarnir breyst og fyrri starfsemi í húsunum féll ekki inn í samtímann eða var horfin með öllu og þau bíða þarna örlaga sinna í nýrri og gerbreyttri heimsmynd.
Húsalengjan öll við Tryggvagötuna hafði þjónað samgöngum eða flutningum á mismunandi hátt, en það er nálægðin við höfnina sem var afgerandi þáttur í allri starfsemi í þeim fram á áttunda áratug 20. aldar. Hér skal stiklað á stóru í sögu þessara húsa, talið frá vinstri: Naustin 1 er byggt 1887 af I.P.T. Bryde kaupmanni sem pakkhús og hefur hýst margþætta starfsemi gegnum tíðina; frá miðjum 10. áratugnum þó aðallega tengt afþreyingu og skemmtunum.
Hornhúsið bláa, Tryggvagata 22, er byggt 1924 af Eimskip hf. sem pakkhús og notað lengi framanaf sem slíkt, seinna nýtt sem afdrep fyrir daglaunamenn og verkamenn við höfnina. Um miðjan níunda áratuginn er þarna innréttaður veitinga- og skemmtistaðurinn Gaukur á Stöng og hefur það nafn fest sig í sessi allar götur síðan þrátt fyrir miklar og róttækar breytingar á húsinu og fjölda fyrirtækja sem þar hafa starfað eftir að Gaukurinn var allur. Þar við hliðina standa tveir bílskúrar sem hafa óljóst eignarhald og hlutverk í gegnum söguna en fengu að víkja er byggt var við Tryggvagötu 22 um 2000 og Gaukur á Stöng stækkaður sem því nam.
Síðasta húsið í þessari röð er Tryggvagata 20, byggt 1942 af Nathan og Olsen sem vörugeymsla og notað sem slíkt fram um miðjan 9. áratuginn er það var hækkað og hafinn í því veitingarekstur og skemmtanahald.
Það má því segja að þrátt fyrir langa byggingasögu og afar ólíka húsagerð hafi þessi hús alla tíð átt mikla samleið; frá því að þjóna einni helstu lífæð samfélagsins, samgöngum og flutningum, hefur hlutverk allra þeirra flust yfir á annað og gerólíkt svið, skemmtanir og afþreyingarstarfsemi. Í knappri sögu þeirra má segja að hægt sé spegla þróun þjóðfélagshátta í hálfa aðra öld.
Þorvaldur Böðvarsson
Heimild: Húsakönnun Reykjavíkur nr. 76, Grófin. Höf. Nikulás Úlfar Másson og Ágústa Kristófersdóttir