Þrjár konur við Ölfusá, 1915.
MAÍ 2019
Ljósmyndari Sigríður Zoëga. SZ1-31725
Sigríður Zoëga (1889–1968) var í hópi þeirra ungu kvenna sem fékk áhuga á að læra ljósmyndun snemma á 20. öld. Hún starfaði fyrst á ljósmyndastofu Péturs Brynjólfssonar (1881-1930) í Reykjavík á árunum 1906–1910, fór síðan til Kaupmannahafnar og loks þaðan til Þýskalands. Markmið hennar var að komast í læri á stofu þar sem hún myndi fá beina þjálfun í myndatökum, en á þessum árum var hlutverk kvenna í ljósmyndun bundið við ýmis konar eftirvinnslu og umsýslu í kring um myndatökurnar, en þær fengu sjaldnast að standa á bak við myndavélina og taka myndir.
Sigríður komst í óformlegt læri hjá þýska ljósmyndaranum August Sander (1876-1964) og dvaldist á heimili hans í Köln árin 1911-1914. Á meðan á dvölinni stóð lifði hún og hrærðist í blómlegu menningarumhverfi borgarinnar og fékk m.a. tilsögn Sanders við að taka myndir, aðallega mannamyndir innan dyra. Þegar hún sneri til Íslands sumarið 1914 í þeim tilgangi að setja upp eigin ljósmyndastofu í Reykjavík þá hafði hún í fórum sér myndavélar og önnur tæki til rekstursins sem Sander hafði hjálpað henni að velja.
Myndin sem hér er til umræðu er þó af öðrum toga og alls ekki dæmigerð fyrir tökurnar sem hún lærði hjá Sander. Þetta er landslagsmynd sem líklega er tekin í skemmtiferð að sumarlagi, en slíkar ferðir um nærsveitir Reykjavíkur voru vinsælar á meðal ungra betri borgara. Auk þess er ljósmyndin tekin á filmu, en myndirnar sem hún tók á stofunni voru allar teknar á stórar glerplötur. Filman kom í leitirnar við rannsókn á starfi Sigríðar árið 1999 á vegum Þjóðminjasafns Íslands og var myndin birt í bókinni Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík sem kom út í tilefni yfirlitssýningar á ljósmyndum Sigríðar í Hafnarborg árið 2000.1 Síðan hefur myndin birst víða og öðlast nýtt líf, m.a. sem minjagripur í safnbúð Þjóðminjasafns Íslands.
Myndin sýnir tvær konur sem standa í vatnsborði og sú þriðja situr flötum beinum í svörtum sandinum og horfir yfir landið. Andrúmsloftið er stillt og fjöllin speglast í vatninu eins og á kyrru sumarkvöldi. Stundin er upphafin og skarpar útlínur kvennanna bera við landslagið. Tvær eru klæddar dökkum ferðafötum, sú í miðið er í pilsi og hvítri blússu, tvær eru berhöfðaðar með sítt, dökkt uppsett hár. Konan sem situr klæðist barðastuttum ferðahatti. Rómantískt yfirbragð myndarinnar er undirstrikað með láréttum og mjúkum línum landslagsins og ávölum formum kvennanna, en fótspor þeirra á svörtum árbakkanum neðst í hægra horni myndarinnar skapa líf í kyrri myndbyggingunni. Því miður er ekkert vitað um tilefni myndatökunnar og ekki hefur tekist að nafngreina konurnar á myndinni, en því mætti velta fyrir sér hvort um einhverskonar æfingu hafi verið að ræða eða listræna tilraun við nýjar aðstæður. Myndin er tekin sumarið 1915, en þá um vorið þann 25. apríl brann ljósmyndastofa Sigríðar í Reykjavíkurbrunanum mikla og Sigríður glataði öllum sínum búnaði. Skömmu eftir brunann keyptu Sigríður og Steinunn Thorsteinson (1886-1978) ljósmyndastofu Péturs Brynjólfssonar við Hverfisgötu 18 og stofnuðu ljósmyndastofu Sigríður Zoëga & Co.2
Sigríður keypti nýjar myndavélar eftir brunann og hugsanlega var hún að reyna eina slíka í þessari sumarferð. Það er greinilegt að í myndinni og fleiri landslagsmyndum frá sama ári er hún markvisst að vinna með æfingar í uppstillingu og myndbyggingu. Hún myndar manneskjurnar úr nokkurri fjarlægð sem fígúrur í landslagi, vinnur með form, tvenndir og þrenndir, æfir skýjafar, speglun og endurkast ljóssins á vatnsfletinum. Allt eru þetta hefðbundnar æfingar ljósmyndarans og myndefnin tilheyra fagurfræði piktoríalismans, sem þá var mikið í tísku og áttu fylgi að fagna innan ljósmyndaklúbba erlendis.
Slíkar æfingar með ljós og form bera vott um áhuga Sigríðar á myndefnum sem stinga í stúf við þau sem hún sinnti daglega á stofunni. En hvernig endurspeglar myndin nútímalega sjálfsmynd Sigríðar? Þessar landslagsmyndir Sigríðar minna á að það mætti flétta feril hennar enn betur inn í sögu evrópskra kvenljósmyndara í takt við tilhneigingu þeirra til að beina myndavélinni að eigin reynsluheimi, oft í þeim tilgangi að miðla nánd sem gæti virst vera í talsverðri andstöðu við þá ægifegurð sem íslenskir ljósmyndarar sóttust eftir að mynda úti í náttúrunni. Mynd Sigríðar gæti eigi að síður hafa verið ætluð til útgáfu, enda minnir hún um margt á málverk Þórarins B. Þorlákssonar og angurværar senur dönsku Skagamálarana. Myndin er vitnisburður um góða þekkingu Sigríðar á málaralist, en hún var einn af stofnendum Listvinafélagsins árið 1916 og tók þátt í að skipuleggja fyrstu myndlistarsýningar félagsins.
Æsa Sigurjónsdóttir
1) Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík,“ Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík, ritstjóri Inga Lára Baldvinsdóttir, Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2000.
2) Æsa Sigurjónsdóttir, „Sigríður Zoëga. Ljósmyndari í Reykjavík,“, bls. 36 – 37.